Frá upphafi var ljóst að viðbrögð við Covid-19-faraldrinum myndu fela í sér bæði efnahagslegan og samfélagslegan kostnað. Þrátt fyrir það tók þjóðin þátt og fólk gerði sitt besta. Fólk áttaði sig á því að hér var vágestur á ferð og utanaðkomandi aðstæður gerðu það að verkum að eðlilegt líf fór úr skorðum.
Veiran virðir ekki landamæri og allra síst ákvarðanir stjórnvalda. Með öðrum orðum: ríkisvaldið hefur ekki burði til að útrýma henni. Aftur á móti urðu markmið ríkisvaldsins að vera ljós fyrst hefta þurfti frelsi einstaklinga og skerða starfsemi fyrirtækja. Og markmiðin voru skýr. Komið skyldi í veg fyrir að hættuástand skapaðist og heilbrigðiskerfið verndað þannig að það réði við það hlutverk sitt að sinna þeim sem veiktust. Það væri – og er enn – óraunhæft markmið að útrýma veirunni.
Snemma í vor kynnti ríkisstjórnin áætlun um afléttingu takmarkana samhliða bólusetningu landsmanna. Sóttvarnayfirvöld út um allan heim lögðu áherslu á bólusetningar og það gerðum við einnig hér á landi. Þar sem markmiðin voru skýr og vel kynnt hélst samstaðan í landinu. Fólk sýndi aðgerðum stjórnvalda skilning og tók vel í hvatningu um að mæta í bólusetningu. Nú hefur okkur tekist að bólusetja tæplega 90% fullorðinna landsmanna. Vegna þess árangurs var öllum takmörkunum innanlands aflétt í lok júní.
Nýtt afbrigði veirunnar hefur nú gert vart við sig. Við vissum að sú staða gæti komið upp og líklegt má teljast að veiran sé komin til að vera í einhverri mynd. Lönd sem lengst hafa gengið í lokun landamæra eru að glíma við smit og við verðum að horfast í augu við að við munum ekki koma í veg fyrir að hún berist hingað.
Staðan er aftur á móti allt önnur en hún var fyrir rúmu ári, bæði hér og erlendis. Stærstur hluti fólks á Íslandi og í nágrannalöndum er bólusettur og hættan á að alvarleg fjöldaveikindi verði heilbrigðiskerfinu ofviða er ekki lengur fyrir hendi miðað við þær upplýsingar sem okkur voru kynntar af sóttvarnayfirvöldum víða um heim. Almenningur hefur tekið á sig margvíslegar byrðar síðastliðið ár sem hefur skilað okkur þeim góða árangri sem að var stefnt. Staðan nú kallar því ekki á íþyngjandi aðgerðir, heldur að við treystum fólki til að meta hvernig það hagar sínum eigin sóttvörnum, byggt á þeirri reynslu sem við höfum öll aflað okkur undanfarin misseri.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.