Til að beita megi úrræðum sóttvarnalaga þarf sjúkdómur að geta valdið farsóttum og ógnað almannaheill. Eftir því sem lengra líður frá upphafi faraldurs og þekkingin verður meiri verður að gera ríkari kröfur til stjórnvalda um að gæta meðalhófs.
Aðgerðir mega hvorki ganga lengra né vara lengur en tilefni er til. Við verðum stöðugt að endurmeta aðgerðir, einkum og sér í lagi eftir vel heppnaðar og víðtækar bólusetningar hérlendis. Þegar 90% fullorðinna einstaklinga eru orðin bólusett þarf að slá nýjan takt í umræðuna, endurmeta aðstæður og leggja grunn að eðlilegu lífi á ný.
Sóttvarnaaðgerðir hafa hingað til gengið vel, en þær nýjustu komu eðlilega flatt upp á marga. Gripið var til tímabundinna aðgerða vegna mikillar útbreiðslu smita í samfélaginu án þess að gengið væri lengra en nauðsyn bar til. Eigi að síður er um íþyngjandi ráðstafanir að ræða. Ráðstafanir sem við ætlum ekki að búa við til lengri tíma. Aðgerðirnar gilda til 13. ágúst og var gripið til þeirra vegna óvissu um alvarleg veikindi bólusettra að mati sóttvarnalæknis. Á þessum tíma verður aflað upplýsinga um hvernig og hve mikið bólusettir veikjast. Það er ánægjulegt að sjá að 97% af þeim sem nú smitast séu nær einkennalausir. Með því er stærsta áfanganum náð, enda markmiðið ekki að telja smit til lengri tíma – heldur að koma í veg fyrir útbreidd alvarleg veikindi og sporna við álagi á heilbrigðiskerfið. Í aðgerðum gegn faraldrinum verða markmiðin að vera skýr. Ekki má hringla með marklínuna. Nú þegar árangurinn verður metinn af bólusetningum sjáum við vonandi þær jákvæðu niðurstöður sem stefnt var að. Við höfum alltaf stefnt að því að bólusetningarnar geri okkur kleift að færa daglegt líf okkar allra til eðlilegs horfs með frelsið að leiðarljósi.
Ég vona að stjórnarandstöðunni auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni. Talað er um stefnuleysi á sama tíma og virtir sérfræðingar hrósa ríkisstjórninni fyrir vandvirkni og hófsemi. Gagnrýnin snýst öðru fremur um að of fljótt hafi verið farið í afléttingar og í að láta af skimun bólusettra inn í landið. Í þessu felst viðsnúningur af hálfu stjórnarandstöðunnar, enda byggðu ákvarðanirnar á tillögu sóttvarnalæknis. Hingað til hafa þessar sömu raddir lagt mikið upp úr því að fylgja tillögum hans í einu og öllu. Sumir leiðtogar stjórnarandstöðunnar mæla fyrir því að „loka landinu“, með tilheyrandi stórauknu atvinnuleysi og tekjutapi samfélagsins. Minna fer fyrir tillögum um aðrar leiðir til að skapa störf og um leið gjaldeyris- og skatttekjur til að halda áfram úti okkar öflugu heilbrigðis-, mennta- og almannatryggingakerfum. Galopin landamæri eru ekki skammaryrði, heldur eðlilegur hluti þess að búa í frjálsu samfélagi og einn megingrundvöllur hagsældar í okkar litla og afskekkta landi. Sömu stjórnmálaleiðtogum finnst ekkert tiltökumál að settar verði á mjög víðtækar takmarkanir á frelsi almennings, jafnvel til langrar framtíðar. Upphrópanir af því tagi lýsa uppgjöf og úrræðaleysi og fá vonandi engan hljómgrunn meðal kjósenda í haust. Eins og Kári Stefánsson lýsti ágætlega á dögunum, þá verðum við að geta haldið áfram að lifa í þessu landi með góðu móti.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.