Að stíga á verðlaunapallinn

Það var magnað að sjá þann árangur sem Annie Mist Þórisdóttir náði á heimsleikunum í crossfit um þar síðustu helgi. Sérstaklega í ljósi þess að hún eignaðist barn fyrir ári og hafði þar áður fallið úr leik á sama móti. Fyrir svona endurkomu, og til að ná þeim árangri sem hún náði í ár, þarf mikla kappsemi, gríðarlegt magn af æfingum, skýr markmið en umfram allt aga og viljastyrk. Þau Annie Mist, Katrín Tanja, Ragnheiður Sara, Þuríður Erla og Björgvin Karl hafa ítrekað á liðnum árum sýnt okkur hversu öflug þau eru, bæði líkamlega og andlega, á þeim vettvangi þar sem bestu keppendur heims etja kappi í þessari erfiðu íþrótt.

Á sama tíma höfum við fylgst með ótrúlegum árangri þeirra sem taka þátt á Ólympíuleikunum í Tókýó. Maður verður hugfanginn þegar maður les sér til um bakgrunn og sögu margra þeirra íþróttamanna sem stíga á pall þessa dagana. Þar eru magnaðar sögur af fólki sem hefur orðið á og gert mistök, en neitar að gefast upp og rís upp aftur. Sögur af fólki sem með aga og viljastyrk nær nú þeim árangri sem það setti sér og vann svo lengi að. Þær sögur ættu að vera okkur innblástur á svo mörgum sviðum.

Við ættum öll að stefna að því að ná árangri í því sem við tökum okkur fyrir hendur og þar er íþróttafólkið góð fyrirmynd. Það er ekki alltaf auðvelt; það þarf að velja vel hvernig tímanum er varið, velja á milli þess sem mann langar að gera og þess sem maður þarf að gera og þannig mætti áfram telja. Ég gef mér að allar aukaæfingarnar þar sem verið er að gera sama hlutinn aftur og aftur hafi ekki alltaf verið skemmtilegar og á köflum eflaust bara mjög leiðinlegar. Allt er þetta þó vænlegt til árangurs.

Það þurfa allir einhvern tíma að kljúfa erfiðar hindranir og það er sjaldnast hægt að krefjast þess að einhver geri það fyrir mann. Að sama skapi þurfa flestir að hafa mikið fyrir þeim árangri sem þeir ná í lífinu, hvort sem það er að klára nám, finna starf við hæfi, stofna fyrirtæki, koma sér upp heimili, ala upp börn og svo framvegis. Það er því virðingarvert að sýna dugnað og þrautseigju, að leggja sig fram og setja markið hátt. Vonandi gerum við það flest.

Dugnaður og elja verða ekki búin til á vettvangi stjórnmálanna, en stjórnmálamenn geta þó ýtt undir með þeim sem setja markið hátt. Það er hlutverk stjórnmálamanna að tryggja það að fólk geti náð árangri í því sem það tekur sér fyrir hendur, meðal annars með því að tryggja réttu innviðina, tryggja það að fólk njóti árangurs af erfiði sínu og tryggja að allir hafi sömu tækifæri til að fylgja metnaðarfullum markmiðum sínum eftir. Þetta snýst ekki bara um það hverjir eru á verðlaunapallinum í dag, heldur hvort fólk eigi þess almennt kost að stíga á pallinn. Þar viljum við sjá sem flesta.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.