Hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu

Við ræðum þessa dagana um margháttaðan vanda heilbrigðiskerfisins, verri þjónustu við leghálsskimanir og liðskiptaaðgerðir og vanmátt Landspítalans til að takast á við erfið verkefni. Í þeirri umræðu virðast flestir ganga út frá því sem gefnu að heilbrigðisþjónustan skuli kostuð og miðstýrð af ríkinu. Engar aðrar lausnir komi til greina en aukið fjármagn úr ríkissjóði þegar að kreppir í rekstrinum. Orðið „einkavæðing“ er óspart notað sem skammaryrði þegar bent er á leiðir til að draga úr kostnaði en bæta samt þjónustuna í leiðinni.

Ég tel nauðsynlegt að brjóta upp þessa umræðuhefð um heilbrigðiskerfið. Hún er komin í ógöngur þegar aðeins ein skoðun er leyfð. Það þarf að skoða kerfið frá grunni og okkur ber skylda til að vera vakandi fyrir nýjungum og bættum rekstri í þágu okkar allra. Umræða um heilbrigðiskerfið þarf að taka mið af þörfum hinna sjúkratryggðu en ekki kerfisins. Því þurfum við að ræða nýjar leiðir til að ná fram bættri nýtingu fjármuna, aukinni framleiðni og skilvirkni í heilbrigðiskerfinu. Þetta er hægt að gera án þess að auka kostnaðarþátttöku þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda. Í mínum huga er nauðsynlegt að einstaklingar og fyrirtæki þeirra komi í auknum mæli að ákveðnum verkefnum og einnig er sjálfsagt að taka upp lausnir úr almennum fyrirtækjarekstri til að ná fram aukinni framleiðni og hagkvæmni við rekstur sjúkrastofnana.

Björn Zoëga, forstjóri Karólínska háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi, segir t.d. í viðtali við Morgunblaðið, að fjármögnunarkerfi Landspítalans sé úr sér gengið. Setja þurfi hvata til að ná fram aukinni framleiðni og skapa stjórnendum og starfsfólki markmið til að keppa að. Ekki sé skynsamlegt að haga málum þannig að það sé sama hvað stjórnendur geri, þeir fái alltaf aukið fjármagn.

Björn hefur náð miklum árangri í rekstri Karólínska sjúkrahússins og hann þekkir vel til hér á landi sem fyrrverandi forstjóri Landspítalans. Það er því ástæða til að staldra við þessi orð hans og huga að því að nálgast málin frá annarri hlið en þeirri sígildu, að kalla sífellt eftir auknu fjármagni úr ríkissjóði. Við þurfum að gera auknar kröfur til stjórnenda með þeim hætti sem Björn lýsir í viðtalinu.

Aðferðin sem Björn Zoëga lýsir er til þess fallin að auka skilvirkni og hagkvæmni í rekstri sjúkrahúsa og bæta um leið þjónustuna við sjúklingana. Er það ekki það sem allir vilja? Einkarekstur og einkaframtak hefur verið ómetanlegt í baráttunni við Covid-19-faraldurinn. Framlag Íslenskrar erfðagreiningar í þeim faraldri sem nú stendur hefur verið ómetanlegt. Það er ástæðulaust að óttast lausnir sem fela það í sér að nýta kosti samkeppninnar til að skapa aðhald og samanburð.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.