Alvörulausnir í loftslagsmálum

Á liðnum árum hafa orðið gífurlegar framfarir í umhverfisvænum lausnum, betri nýtingu á auðlindum og sóun hefur minnkað. Á sama tíma hefur hugarfar og almenn þekking fólks á umhverfismálum gjörbreyst, þá sérstaklega á meðal yngri kynslóða. Þetta kemur einnig fram í breyttri hegðun neytenda. Fólk vill til að mynda vita hvaðan maturinn á diskinum kemur, hvernig hann er framleiddur og við hvernig aðstæður. Við leggjum áherslu á að minnka sóun, leitum leiða til að endurvinna og þannig mætti áfram telja. Þetta er góð þróun og hið frjálsa markaðshagkerfi hefur tekið virkan þátt í því að finna upp á og bjóða lausnir sem eru til þess fallnar að bæta umhverfið og vellíðan neytenda.

Það er nauðsynlegt að ræða loftslagsmál á vettvangi stjórnmálanna. Stjórnmálamenn hafa og munu áfram taka þátt í samstarfi annarra þjóða þegar kemur að málaflokknum. Það er þó alltaf hætt við því að stjórnmálamenn telji sig eina hafa lausnina við vandanum. Yfirleitt kemur það fram í því þegar vinstrisinnaðir stjórnmálamenn kynna boð og bönn, íþyngjandi aðgerðir, hærri skatta og aukin ríkisafskipti. Við sjáum það aftur og ítrekað frá þeim stjórnmálamönnum sem reyna að skreyta sig hvað mest með fjöðrum umhverfisverndar – en kæra sig lítið um raunverulegar lausnir í einu stærsta viðfangsefni samtímans.

Loftslagsváin er alþjóðlegt vandamál og allar þjóðir heims þurfa að leggja sitt af mörkum. Það eitt að friðlýsa tiltekin svæði á Íslandi gerir lítið fyrir heildarmyndina. Við eigum að vera óhrædd við að fara í grænar framkvæmdir sem hvort í senn eru til þess fallnar að bæta lífsgæði okkar sem hér búum og vinna gegn hlýnun jarðar. Hitaveituvæðingin á síðustu öld er gott dæmi um slíka framför.

Með auknum alþjóðaviðskiptum, auknu hugviti og sífelldum framförum hefur okkur tekist að búa þannig um hnútana að aldrei hefur verið betra að vera uppi í mannkynssögunni en nú. Næsta framfaraskref okkar felst í grænni orkubyltingu. Við höfum yfir að búa þeim náttúruauðlindum sem til þarf og eigum að vera óhrædd við að nýta þær í sátt við náttúruna. Sú orka sem til verður fer ekki öll í orkusækinn iðnað heldur mun hún þvert á móti leiða af sér ný störf hjá hinum ýmsu tækni- og þjónustufyrirtækjum – bæði þeim sem til staðar eru og þeim sem eftir á að stofna.

Sú kynslóð sem nú er að komast á fullorðinsár hefur ekki áhuga á því að skaða náttúruna. Hún hefur aftur á móti áhuga á auknum lífsgæðum og einfaldara lífi. Þess vegna þurfum við að styðja við umhverfisvæna þróun með hagrænum hvötum og einföldu regluverki. Það er í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins. Hugvitið er til staðar og tækifærin líka. Við þurfum bara að grípa þau.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.