Það er óumdeilt að Ísland er háskattaríki hvernig sem á það er litið og frekar tilefni til þess að lækka álögur en að hækka þær. Skattkerfið á Íslandi er þegar tekjujafnandi og ójöfnuður mælist einna minnstur hér á landi. Það heyrist þó kunnuglegt stef úr herbúðum vinstri manna í aðdraganda kosninga, að lausnin við flestum vandamálum sé aukin skattheimta. Sagan kennir okkur þó að háir skattar beinast ekki bara að stórfyrirtækjum og efnameiri einstaklingum, jafnvel þó þeir hafi verið kynntir til leiks þannig, heldur bitna þeir í flestum tilvikum á millistéttarfólki. Við þurfum ekki að fara lengra aftur en til þeirrar ríkisstjórnar sem sat á árunum 2009-2013 til að sjá dæmi um það þegar tekjuskattur hækkaði á millitekjuhópa.
Í dægurþrasi stjórnmálanna er mjög auðvelt að tala um hærri skatta á hina ríku og stórfyrirtæki og eðli málsins samkvæmt tengja fæstir við það og sjá þar af leiðandi ekki fyrir sér að greiða hærri skatta. Við ættum öll að láta okkur umræðu um skatta varða, því það kemur flestum á óvart hversu háir þeir eru í raun og veru hér á landi. Það má í raun segja að skatturinn fylgi okkur frá vöggu til grafar. Fyrir utan tekjuskatt og útsvar af launum greiðum við virðisaukaskatt af allri neyslu, fjármagnstekjuskatt af öllum þeim vöxtum sem við kunnum að fá í gegnum tíðina og aðra skatta sem stjórnmálamönnum hefur í gegnum tíðina þótt sjálfsagt að leggja á.
Það felst engin dyggð í því að tala fyrir hærri sköttum. Þeir stjórnmálamenn sem það gera hafa það eina markmið að slá um sig og gera góðverk á kostnað annarra. Vissulega kunna einstaka loforð að hljóma vel í eyrum þeirra sem sjá fram á að njóta góðs af þeim en staðreyndin er samt sú að öll skattheimta hefur áhrif og sjaldnast eru þau áhrif til þess fallin að bæta líf okkar í stóra samhengi hlutanna. Reynsla annarra landa af hárri skattheimtu á einstaka hópa, fyrirtæki eða atvinnugreinar, er sú að tekjuöflun hins opinbera er nær aldrei í takt við þær væntingar sem boðaðar voru og þeir hópar sem mögulega áttu að njóta góðs af svo hárri skattheimtu verða fyrir vonbrigðum.
Það er einnig mikilvægt í þessari umræðu að bera virðingu fyrir þeim verðmætum sem fyrirtæki og einstaklingar skapa. Þau verðmæti eru ekki eign ríkisins og ríkið á enga heimtingu á þeim, þó umræðan sé oftast með þeim hætti. Sá einstaklingur sem leggur hart að sér í vinnu á að njóta afraksturs af erfiði sínu. Ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði ætti að skoða launaseðla sína vel og meta svo hvort það sem eftir stendur sé góður mælikvarði á þá vinnu sem það hefur innt af hendi – og velta fyrir sér í framhaldinu hvort það vilji í raun og veru borga meira til ríkisins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.