Nýtum tækifærin

Við búum sem betur fer við góð lífskjör hér á landi. Lífsgæði hér eru með þeim mestu í heimi, hamingja þjóðarinnar mælist hátt, samfélagsinnviðir okkar eru sterkir, jöfnuður er mikill, félagslegt öryggi er mikið og það sama gildir um almennt öryggi. Kaupmáttur launa hækkaði í fyrra þrátt fyrir heimsfaraldur og þá hafa ráðstöfunartekjur aukist töluvert á undanförnum árum. Við höfum, í fyrsta skipti í sögunni og þrátt fyrir gífurlegt efnahagslegt högg af völdum faraldursins, náð þeim árangri að halda hagkerfinu og vöxtum í jafnvægi. Það hefur síðan bein og jákvæð áhrif á fjármál heimila og fyrirtækja. Það skiptir máli.

Við búum í landi þar sem jafnrétti kynjanna er með því besta sem gerist í heiminum, við höfum aðgengi að fjölbreyttri menntun og atvinnutækifærum, atvinnuþátttaka er með því hærra sem gerist og okkur hefur tekist að búa til öflugt velferðarkerfi sem grípur þau sem þurfa á því að halda. Það skiptir máli.

Við búum svo vel að hafa aðgang að auðlindum sem eru til þess fallin að auka enn frekar við hagsæld hér á landi, hvort sem litið er til sjávarafurða sem færa okkur útflutningsverðmæti, nýsköpun og tækniþróun, orkuauðlinda sem hjálpa okkur að framleiða endurnýjanlega og umhverfisvæna orku, náttúru sem við njótum ýmist sjálf eða með erlendum ferðamönnum sem hingað koma og þannig mætti áfram telja. Það skiptir máli.

Við lifum eftir sterkum gildum sem hafa fært okkur hagsæld og tækifæri til að gera enn betur. Með metnaði, hugmyndavinnu og léttu viðmóti til alvarleika lífsins hefur okkur tekist að búa til þau lífskjör sem hér hafa verið nefnd og þá hagsæld sem við njótum. Við vitum hvernig það er að takast á við erfiðleika, erfiðar aðstæður og áskoranir sem fylgja því að búa hér á Íslandi, hvort sem horft er til náttúrunnar eða félagslegra þátta, en alltaf hefur okkur tekist að gera meira og betur. Það skiptir máli.

Ísland er svo sannarlega land tækifæranna en ekkert af þessu gerist af sjálfu sér. Í þessum raunveruleika þarf að hafa skýra sýn á framtíðina, skilning á því hvernig hagkerfið virkar og þekkingu á því mikilvæga hlutverki sem felst í því að veita þjóðinni forystu. Það skiptir máli.

Við viljum stefna lengra, gera betur í dag en í gær og tryggja hag okkar og framtíðarkynslóða sem best. Það gerum við ekki með því að draga upp ranga mynd af stöðu mála eða tala með óábyrgum hætti um stjórnmál eða efnahagsmál – heldur með því að sýna ábyrgð og festu og nýta þau tækifæri sem fyrir okkur liggja, eins og Sjálfstæðisflokkurinn boðar.

Við höfum tækifæri til þess að sýna það í verki í kjörklefanum þegar við göngum til kosninga. Við trúum því að Ísland sé land tækifæranna og undir forystu Sjálfstæðisflokksins ætlum að nýta þau tækifæri.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.