Við lifum á tímum stórkostlegra framfara og tækninýjunga sem í flestum tilvikum eru til þess fallnar að bæta og einfalda líf okkar. Þær færa okkur nýjar leiðir til að eiga viðskipti, ferðast og eiga samskipti, stunda nám, vinnu og þannig mætti áfram telja. Ekkert af þessu varð þó til að sjálfu sér. Til þess þurfti hugmyndaríkt fólk sem var tilbúið til að taka áhættu til að sjá hugmyndir sínar verða að veruleika og ekki síður fjársterka aðila sem voru tilbúnir að fjárfesta í fólki og hugmyndum.
Lengi vel reyndist það stofnendum Spotify erfitt að finna fjármagn til vaxtar þar sem fáir fjárfestar vildu snerta á sænska frumkvöðlafyrirtækinu. Það var ekki fyrr en efnaður fjárfestir frá Hong Kong fjárfesti í félaginu sem hjólin byrjuðu að snúast. Svipaða sögu má segja af Google sem ólíkt Spotify átti fjölmarga keppinauta. Flestir fjárfestar töldu að þetta yrði bara enn ein leitarvélin á netinu. Til eru margar svona sögur. Þegar stofnandi Atari, sem var frumkvöðull í framleiðslu leikjatölva, falaðist eftir fjármagni var honum sagt að það væri „heimskuleg hugmynd“ að halda að fólk vildi spila tölvuleiki á sjónvarpsskjá. Fyrirtæki á borð við Twitter, YouTube, Airbnb og Uber þurftu öll að hafa mikið fyrir því að fá fjárfesta í lið með sér á upphafsdögum fyrirtækjanna enda voru hugmyndir stofnenda þeirra byltingarkenndar og til þess fallnar að ýta við rótgrónum og stöðnuðum mörkuðum eða skapa nýjar neysluvenjur sem enginn hafði séð fyrir sér að yrðu að veruleika.
Við munum áfram verða vitni að hvers kyns framförum og tækninýjungum. Bíla-, skipa- og flugvélaframleiðendur eru að þróa umhverfisvænni farartæki, matvælaframleiðendur munu finna leiðir til að nýta afurðir betur og minnka matarsóun og við munum sjá frekari nýjungar í tölvum okkar og símum, sem munu opna leiðina að einhverju sem engum okkar hefur enn dottið í hug. Þetta er ekki tæmandi upptalning.
Til að stuðla að frekari framförum þurfum við hugmyndaríkt fólk, en það fólk þarf um leið á því að halda að sköttum og reglugerðum af hálfu hins opinbera sé stillt í hóf og að til staðar séu þannig fjármunir í hagkerfinu að eigendur þeirra séu tilbúnir til að fjárfesta í nýjum hugmyndum. Sumir telja að rétt sé að hækka skatta og láta ríkið í kjölfarið styðja við nýsköpun með fjárframlagi eða styrkjum. Ríkisvaldið getur gert margt til að hvetja til nýsköpunar og þróunar en ætla má að þau sem áður hafa búið til hagnað séu betur til þess fallin að fjárfesta í nýjum hugmyndum og atvinnutækifærum heldur en stjórnmálamenn. Þess vegna verður að leggja áherslu á öflugt atvinnulíf, því það skapar forsendur fyrir fjárfestingum í nýjum hugmyndum sem bæta líf okkar allra.
Pistillinn „Fjárfest í fólki og hugmyndum” birtist í Morgunblaðinu 4. október 2021.