Af hverju senda stúlkur undir lögaldri svona myndir af sér þrátt fyrir umræðuna í fjölmiðlum?“ var spurt af fjölmiðlamanni í góðri og mikilvægri umfjöllun um stafrænt kynferðisofbeldi meðal grunnskólabarna í vikunni. Spurningin er algeng en hún er til merkis um úrelt viðhorf til kynferðisbrota og þá áherslu að breyta þurfi hegðun þolandans. Okkur hefur þó tekist að eyða þekktum mýtum um að við þyrftum að hylja okkur betur, klæða okkur í síðari kjóla, vera ekki einar, drekka minna eða bara ekki taka mynd með rakt hár til að bjóða ekki hættunni heim á að verða fyrir ofbeldi. Slíkur málflutningur fær sem betur fer minni hljómgrunn en áður.
Sömu mýtur mega ekki verða gildar í umræðunni þegar kemur að stafrænu kynferðisofbeldi þótt við séum að horfa til annarra og nýrra birtingarmynda ofbeldis af sama grunni. Kynferðisofbeldi í gegnum stafræna tækni er ekki undanskilið þeirri byltingu, breytingum og umræðu sem hefur verið síðustu ár enda algengt notkunarform þess að brjóta á einstaklingum, jafnt börnum sem fullorðnum. Um það ofbeldi gilda sömu lögmál; ábyrgðin er gerandans og þá hegðun verðum við með öllum mætti að stöðva. Í því felst til dæmis að dreifa ekki án samþykkis kynferðislegu myndefni sem einstaklingur sendi þér.
Ég hef í störfum mínum lagt áherslu á að lög taki mið af breyttri tækni þegar svo ber undir. Löggjöfin þarf að endurspegla nýjan veruleika og gerir það nú með mun betri hætti en áður eftir að frumvarp sem ég lagði fram um kynferðislega friðhelgi var samþykkt í byrjun þessa árs. Nýtt hegningarlagaákvæði styrkir réttarvernd einstaklinga með hliðsjón af þeim samfélagslegu – og tæknilegu – breytingum sem hafa orðið og þróun í viðhorfi til kynferðisbrota sem framin eru með stafrænum hætti.
Við þurfum þó einnig að samþykkja breytingar á barnaníðsákvæði almennra hegningarlaga sem ekki náði fram að ganga á síðasta þingi. Þar er um að ræða löngu tímabærar úrbætur sem felast meðal annars í verulegri rýmkun refsirammans, breyttri hugtakanotkun og skýrari greinarmun á mörkum kynferðislegra samskipta og kynferðisbrota. Með þeim breytingum eru tekin mikilvæg skref til að vernda börn betur gegn stafrænum birtingarmyndum kynferðislegs ofbeldis. Meðal annars með því að hækka refsirammann úr tveimur í sex ár eru send skýr skilaboð um alvarleika þessara brota.
Við tökum baráttuna gegn stafrænu kynferðisofbeldi alvarlega. Í því samhengi þurfum við að horfa til gerenda og frekar spyrja spurninganna hvernig stöðvum við þá í að beita ofbeldi?
Ríkislögreglustjóri mun ráðast í sérstakt átak í næstu viku þar sem nemendur í 8. bekk í grunnskólum fá fræðslu um mikilvægi samþykkis, einnig í stafrænum samskiptum. Það er eitt skrefið af mörgum sem við þurfum að stíga áfram.
Pistillinn „Stafrænt samþykki” birtist í Morgunblaðinu 22. október 2021.