Sköpum tækifæri úti um allt land

Þegar ákveðið var að ráðast í kaup á nýju varðskipi, Freyju, fyrr á þessu ári var einnig ákveðið að heimahöfn skipsins skyldi vera á landsbyggðinni. Siglufjörður varð fyrir valinu vegna legu sinnar og vegna þess að þar er fyrir hendi viðlegukantur með hæfilegu dýpi fyrir þetta öfluga skip. Staðarvalið hefur fengið mikinn og víðtækan stuðning úti um allt land.

Skipaumferð hefur aukist umhverfis Ísland á undanförnum árum, ekki síst vegna umferðar farþega- og flutningaskipa við norðan- og austanvert landið. Með því að staðsetja Þór og Freyju við hvorn enda landsins erum við að bregðast við breyttum aðstæðum, auka viðbragðsflýti og viðbragðsgetu á sjó og við strendur landsins. Allt hefur þetta mikla þýðingu fyrir almannavarnir og öryggi íbúanna í viðkomandi landshlutum.

Þegar teknar eru ákvarðanir um flutning á starfsemi fyrirtækja og stofnana ríkisins er verið að treysta byggð í landinu. Ný störf verða til, fjölbreytnin verður meiri og nýir möguleikar skapast fyrir allan þann fjölda af vel menntuðu fólki sem kýs að búa og starfa í sinni heimabyggð ef sá möguleiki er fyrir hendi. Gildir það jafnt um hvers kyns iðnnám, tækni- og háskólamenntun. Best fer á því og það er líklegast til árangurs þegar flutningur á starfsemi ríkisins stafar af þörf eða nauðsyn eins og hvað varðar val á útgerðarstað varðskipsins Freyju.

Það hefur sýnt sig að áhugi er fyrir hendi t.d. hjá ungu háskólamenntuðu fólki að sækja um þegar boðið er upp á ný störf á vegum opinberra aðila úti á landsbyggðinni. Sem dæmi má nefna að nýlega voru auglýst laus til umsóknar tvö ný störf á vegum Persónuverndar á Húsavík. Umsækjendur voru um 140!

Tækninýjungar og framþróun munu greiða fyrir þróun um flutning starfa út á land. Stöðugt er unnið að því að auka framboð rafrænna lausna fyrir þá sem sækja þurfa þjónustu til opinberra aðila og sýslumannsembættin hafa t.d. bætt þjónustu sína. Framboð rafrænna og stafrænna lausna á aðeins eftir að aukast og auðvelda flutning starfa út á landsbyggðina – og um leið búsetu þeirra sem þar kjósa að búa. Þetta á ekki aðeins við um störf á vegum ríkisins heldur einnig fyrirtæki á almennum markaði.

Í heimi þar sem við erum sífellt að leita leiða til að einfalda líf okkar kunna að liggja tækifæri í því að staðsetja sig utan þéttbýlustu kjarnanna. Með auknum möguleikum á fjarvinnu skapast tækifæri til fjölbreyttara úrvals á búsetu en áður. Eins hef ég trú á því að fyrirtæki á landsbyggðinni muni til skemmri og lengri tíma sjá tækifæri í því að efla starfsemi sína, ráða til sín fleira fólk og taka þátt í öflugri uppbyggingu samfélagsins. En til að svo geti orðið verður þjónusta hins opinbera að vera aðgengileg og einföld og til þess fallin að skapa fólki tækifæri til búsetu um allt land.

Pistillinn „Sköpum tækifæri úti um allt land” birtist í Morgunblaðinu 10. nóvember 2021.