Áskoranir í útlendingamálum

Fundur norrænna ráðherra sem fara með útlendingamál stendur nú yfir í Lundi í Svíþjóð. Ég sit fundinn fyrir Íslands hönd sem dómsmálaráðherra. Slíkir fundir eru haldnir einu sinni á ári og þar gefst tækifæri til að skiptast á skoðunum um málefni fólks á flótta og ræða þau úrlausnarefni sem eru efst á baugi í málaflokknum hverju sinni.

Ísland stendur sig vel á mörgum sviðum í þessum efnum en við okkur blasa einnig erfiðar áskoranir. Við getum ekki mælt árangur einungis í fjölda þeirra sem við veitum vernd heldur þurfa önnur kerfi, eins og menntakerfið, að hafa burði til að taka við og tryggja árangursríkt nám og aðlögun þeirra barna sem hingað koma. Geta okkar er alltaf takmörkuð við þá fjármuni, mannafla og aðstöðu sem við getum lagt í þetta brýna verkefni. Markmið okkar hlýtur þá að felast í því að tryggja þeim forgang sem eru í mestri neyð og gera það vel.

Að undanförnu hefur þróunin hér á landi einkennst af mikilli aukningu umsókna um alþjóðlega vernd frá fólki sem þegar hefur hlotið vernd í öðru Evrópuríki. Á síðustu tveimur árum hefur hlutfallið farið úr 20% í 55% af þeim sem hingað leita eftir vernd. Verndarkerfið þarf að ráða við málafjöldann og geta sinnt þeim sem virkilega þurfa á vernd að halda. Þessi staða er ólík þeirri sem þekkist í hinum norrænu ríkjunum. Skýringin felst í ólíku lagaumhverfi hér á landi í samanburði við önnur Evrópuríki.

Mikil sérstaða og frávik varðandi málsmeðferð einstakra hópa, ásamt frjálsri för um Schengen-svæðið, hefur leitt til þess að hingað kemur tiltölulega mikill fjöldi einstaklinga sem þegar hefur sótt um vernd í öðrum ríkjum Evrópu og það í meira mæli en stjórnsýslan ræður við.

Í frumvarpi sem ég hef tvívegis mælt fyrir á Alþingi um breytingar á útlendingalögunum er lagt til að horfið verði frá því að umsóknir þeirra sem þegar eru með vernd í öðru ríki verði teknar til efnislegrar meðferðar á grundvelli undantekninga í lögunum um sérstök tengsl og sérstakar ástæður. Þess í stað verði tekið til skoðunar hvort viðkomandi, eftir að hafa fengið synjun um efnismeðferð, eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með hliðsjón af aðstæðum í því landi þar sem viðkomandi hefur þegar hlotið vernd. Þær breytingar taka mið af því lagaumhverfi sem almennt ríkir á Norðurlöndum.

Við getum aldrei veitt öllum þeim sem hingað leita vernd. Sífellt verður að bregðast við nýjum áskorunum og breytingum og gæta þess að verndarkerfið er neyðarkerfi. Kerfið á fyrst og fremst að gagnast þeim sem eru í mestri neyð á hverjum tíma. Jafnframt þurfum við að taka til alvarlegrar umræðu stöðu atvinnuleyfa erlendra ríkisborgara og möguleika þeirra til að koma hér og starfa. Það er umræða sem vert er að taka.

Pistillinn „Áskoranir í útlendingamálum” birtist í Morgunblaðinu 19. nóvember 2021.