Eðli málsins samkvæmt hafa verið skiptar skoðanir á þeim sóttvarnaráðstöfunum sem gerðar hafa verið á liðnum tveimur árum, um réttmæti þeirra, tilgang og virkni. Það eru skiptar skoðanir á því hvort fjöldatakmarkanir eigi að miðast við 10 manns, 50 eða fleiri, klukkan hvað loka eigi veitingahúsum, hvar, hvenær og hverja eigi að skima og þannig mætti áfram telja. Það er bæði eðlilegt og gott að fólk hafi á þessu skoðanir, því fæst okkar vilja búa í samfélagi þar sem almenningur þarf að sitja og standa eftir skipunum hins opinbera.
Það þarf alltaf að réttlæta með sterkum rökum það sem kalla má harðar aðgerðir ríkisins gagnvart daglegu lífi fólks. Það á tvímælalaust við þegar fólki er bannað að koma saman, það skikkað til að vera heima hjá sér, fyrirtækjum er bannað að hafa opið og svo framvegis.
Þegar ný veira gerði vart við sig fyrir rúmum tveimur árum var ljóst að hún væri hættuleg og eftir tilvikum banvæn. Það var því eðlilegt að bregðast skjótt við, reyna eftir bestu getu að takmarka útbreiðslu hennar og vernda þau sem augljóslega voru viðkvæmust fyrir henni. Til þess þurfti að beita úrræðum sem við eigum, sem betur fer, ekki að búa við í okkar daglega lífi. Það ætti aldrei að vera auðveld ákvörðun fyrir stjórnmálamenn að slökkva á hagkerfum heims með handafli og skerða réttindi almennings – hvort sem er til skemmri eða lengri tíma.
Nú, rúmlega tveimur árum síðar, vitum við meira og nýjustu afbrigði veirunnar valda ekki sama skaða og upphaf hennar gerði. Í millitíðinni hafa einnig orðið til bóluefni sem augljóslega bæla áhrif hennar á meginþorra almennings. Að öllu óbreyttu – og með þeim fyrirvara að kórónuveiran stökkbreytist ekki í eitthvað enn verra – má segja að hún sé í rénun og langt frá því að vera jafn hættuleg og hún var í byrjun.
Við getum, umræðunnar vegna, varpað fram tveimur spurningum. Var réttlætanlegt að bregðast við með svo harkalegum hætti í mars 2020? Og er réttlætanlegt að beita sömu aðferðum nú?
Ég myndi svara fyrri spurningunni játandi. Þegar lífshættuleg veira ríður yfir þarf að bregðast við. Miðað við þær upplýsingar og þekkingu sem við búum yfir nú, og þau bóluefni sem vísindin hafa fært okkur, er ekki hægt annað en að svara seinni spurningunni neitandi. Þrátt fyrir að nú séu í gildi verulega strangar ráðstafanir sjáum við metfjölda í smitum nær daglega. Forsendur fyrir þeim takmörkunum sem nú eru í gildi eru brostnar og það verður að vera hægt að aflétta íþyngjandi takmörkunum jafn hratt og þær eru settar á.
Að lokum má nefna að við búum við ýmislegt sem er okkur hættulegt, það er staðreynd lífsins. Við tökumst á við hættur með ýmsum hætti, leitum lausna og gerum eðlilegar ráðstafanir. Sem betur fer felast lausnirnar sjaldnast í því að fara ekki út úr húsi.
Pistillinn „Tvær spurningar” birtist í Morgunblaðinu 27. janúar 2022.