Ráðuneyti án staðsetningar

Við könnumst flest við það að gera hlutina á ákveðinn hátt, aftur og aftur og allt eins. Við vitum ekki alltaf af hverju við gerum hlutina þannig, stundum er það af því að við höfum vanið okkur á það, einhver hefur kennt okkur að gera hlutina með þessum hætti – en stundum er ástæðan bara af því bara. Eins og gerist og gengur eru venjur misgóðar. Sumar þeirra hjálpa til við að mynda einhverja festu og stöðugleika en aðrar verða til þess að hindra framför og festa okkur í ákveðnu fari.

Þegar við hugsum um ráðuneyti og ríkisstofnanir hugsum við oftast til stórra skrifstofubygginga með langa skrifstofuganga í miðbæ Reykjavíkur. Það er svo sem eðlilegt, þar eru flestar af þessum stofnunum til húsa. Það þýðir þó ekki að þannig þurfi það alltaf að vera.

Nýtt háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti hefur nú tekið til starfa. Það er merkilegur áfangi því þetta ráðuneyti fer með málaflokka sem munu leiða hagvöxt og hagsæld til framtíðar – menntun, mannauð, hugvit og þekkingu. Við uppbyggingu nýs ráðuneytis er mikilvægt að hugsa hlutina upp á nýtt, horfa á myndina með öðrum augum en áður, huga að nýsköpun í stjórnsýslu, vera framsækin og bjóða upp á sveigjanleika sem nýtist bæði starfsmönnum ráðuneytisins og þeim aðilum sem ráðuneytið þjónar.

Nýtt ráðuneyti þarf líka að taka mið af nýjustu tækni og þeim möguleikum sem í boði eru. Þess vegna munu nær öll störf sem auglýst verða í ráðuneytinu bjóða upp á það sem við þekkjum í daglegu tali sem störf án staðsetningar. Framtíðarstarfsmenn ráðuneytisins geta þannig búið á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Það er mikill fengur í því að geta starfað fyrir ráðuneyti en hafa fjölbreytt val um búsetu.

Ef það er eitthvað sem við getum lært af faraldrinum sem við höfum átt við sl. tvö ár þá eru það tækifærin sem við sjáum til að starfa á ólíkum starfsstöðvum. Gæði ráðuneyta eru ekki talin í þeim fermetrum sem þau taka í skrifstofuhúsnæði í miðbæ Reykjavíkur, heldur í afköstum og þeim áhrifum sem þau hafa á daglegt líf okkar, í þessu tilviki á menntakerfið, atvinnulífið, fjárfestingar og þróun í nýsköpun, lausnir í iðnaði og þannig mætti áfram telja. Skýrar leikreglur og skilvirk þjónusta er það sem skiptir máli.

Það er fjölbreytt aðstaða í boði víða um land. Það er hægt að nýta þekkingarsetur og nýsköpunarklasa, skrifstofur opinberra stofnana í sveitarfélögum, einkarekna skrifstofukjarna og svo framvegis. Þekkingin er fyrir hendi út um allt land og það eru aukin lífsgæði fólgin í því að geta sinnt draumastarfinu óháð því hvar viðkomandi býr á landinu. Svona eflum við byggðir landsins, gerum atvinnulífið fjölbreyttara og viðhöldum þekkingu og reynslu í heimabyggð. Svona er framtíðin – og við erum að stíga inn í hana.

Pistillinn „Ráðuneyti án staðsetningar” birtist í Morgunblaðinu 5. febrúar 2022.