Útflutningstekjur hugverkaiðnaðar námu tæpum 16 prósentum af gjaldeyristekjum þjóðarinnar árið 2020. Fátt er því til fyrirstöðu að hugverkaiðnaður geti fest sig enn frekar í sessi sem ein mikilvægasta útflutningsgrein landsins. Það er þó mikilvægt að halda rétt á spilunum til að sú framtíðarsýn gangi eftir. Heimur hugverkaiðnaðar er kvikur og samkeppnin er hörð. Ísland verður ekki meðal fremstu hugvitsþjóða heims án þess að stjórnvöld séu á tánum og skapi hér umhverfi sem greiðir veg frjórra frumkvöðla, sem íslenska þjóðin er svo lánsöm að vera rík af. Hugmyndirnar vantar ekki. Mitt hlutverk er að passa að þær hljóti brautargengi.
Árið 2022 mun vanta ríflega 800 sérfræðinga í hálaunastörf sem krefjast sérhæfðrar menntunar samkvæmt nýrri greiningu Íslandsstofu. Samkvæmt henni stefnir í 41 prósent fjölgun stöðugilda sem krefjast sérhæfðrar menntunar milli áranna 2021 og 2022.
Sérfræðiþekking skiptir jafn miklu máli og gott stuðningsumhverfi og fjármögnunarumhverfi til nýsköpunar, þar sem grettistaki hefur verið lyft undanfarin ár. Þegar eru komnar fram vísbendingar um stórauknar fjárfestingar í nýsköpun, hjá sprotum og fyrirtækjum sem eru lengra komin. Það er ekki síst að þakka þeirri nýsköpunarstefnu og aðgerða á sviði nýsköpunar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir undanfarin ár. Þar má sérstaklega nefna hækkun á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar. Við munum halda áfram að gera betur í umhverfi frumkvöðla hér á landi enda mun það ýta undir frekari hagsæld til frambúðar.
Það vantar þó eitt púsl í þessa mynd; mannauðinn. Skortur er á sérfræðingum og mörg fyrirtæki þekkja þann veruleika að þurfa að leita eftir sérhæfðri þekkingu, menntun og reynslu út fyrir landsteinana þegar fullreynt er að fá Íslendinga í sérfræðistörf.
Barist er um sérfræðinga í þessum greinum um allan heim. Staðsetning skiptir æ minna máli og fólk getur í auknum mæli starfað hvar í heiminum sem það vill. Fara þarf í markvissar aðgerðir til þess að laða erlenda sérfræðinga til landsins, til dæmis með skattaívilnunum og að skapa eftirsóknarvert vinnuumhverfi. Til lengri tíma þarf auk þess að hvetja ungt fólk til að sækja sér menntun í tæknigreinum. Það verður til að mynda gert með sérstöku hvatningarátaki inni í menntastofnunum landsins, allt niður á grunnskólastig.
Markaðssókn Íslands í útlöndum á svo ekki einungis að sækja ferðamenn til okkar fallega lands. Ísland á líka að vera land nýsköpunar í augum heimsins. Þar sem er gott að sækja landið heim en líka að setjast hér að, vinna sérhæfð störf í góðu starfsumhverfi og fjárfesta í einstökum tækifærum. Búa til verðmæti og festa rætur.
Við erum í dauðafæri.
Pistillinn „800 sérfræðingar óskast” birtist í Morgunblaðinu 15. febrúar 2022.