800 sérfræðingar óskast

Útflutn­ings­tekj­ur hug­verkaiðnaðar námu tæp­um 16 pró­sent­um af gjald­eyris­tekj­um þjóðar­inn­ar árið 2020. Fátt er því til fyr­ir­stöðu að hug­verkaiðnaður geti fest sig enn frek­ar í sessi sem ein mik­il­væg­asta út­flutn­ings­grein lands­ins. Það er þó mik­il­vægt að halda rétt á spil­un­um til að sú framtíðar­sýn gangi eft­ir. Heim­ur hug­verkaiðnaðar er kvik­ur og sam­keppn­in er hörð. Ísland verður ekki meðal fremstu hug­vitsþjóða heims án þess að stjórn­völd séu á tán­um og skapi hér um­hverfi sem greiðir veg frjórra frum­kvöðla, sem ís­lenska þjóðin er svo lán­söm að vera rík af. Hug­mynd­irn­ar vant­ar ekki. Mitt hlut­verk er að passa að þær hljóti braut­ar­gengi.

Árið 2022 mun vanta ríf­lega 800 sér­fræðinga í há­launa­störf sem krefjast sér­hæfðrar mennt­un­ar sam­kvæmt nýrri grein­ingu Íslands­stofu. Sam­kvæmt henni stefn­ir í 41 pró­sent fjölg­un stöðugilda sem krefjast sér­hæfðrar mennt­un­ar milli ár­anna 2021 og 2022.

Sér­fræðiþekk­ing skipt­ir jafn miklu máli og gott stuðnings­um­hverfi og fjár­mögn­un­ar­um­hverfi til ný­sköp­un­ar, þar sem grett­i­staki hef­ur verið lyft und­an­far­in ár. Þegar eru komn­ar fram vís­bend­ing­ar um stór­aukn­ar fjár­fest­ing­ar í ný­sköp­un, hjá sprot­um og fyr­ir­tækj­um sem eru lengra kom­in. Það er ekki síst að þakka þeirri ný­sköp­un­ar­stefnu og aðgerða á sviði ný­sköp­un­ar sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur staðið fyr­ir und­an­far­in ár. Þar má sér­stak­lega nefna hækk­un á end­ur­greiðslum vegna rann­sókna og þró­un­ar. Við mun­um halda áfram að gera bet­ur í um­hverfi frum­kvöðla hér á landi enda mun það ýta und­ir frek­ari hag­sæld til fram­búðar.

Það vant­ar þó eitt púsl í þessa mynd; mannauðinn. Skort­ur er á sér­fræðing­um og mörg fyr­ir­tæki þekkja þann veru­leika að þurfa að leita eft­ir sér­hæfðri þekk­ingu, mennt­un og reynslu út fyr­ir land­stein­ana þegar full­reynt er að fá Íslend­inga í sér­fræðistörf.

Bar­ist er um sér­fræðinga í þess­um grein­um um all­an heim. Staðsetn­ing skipt­ir æ minna máli og fólk get­ur í aukn­um mæli starfað hvar í heim­in­um sem það vill. Fara þarf í mark­viss­ar aðgerðir til þess að laða er­lenda sér­fræðinga til lands­ins, til dæm­is með skattaí­viln­un­um og að skapa eft­ir­sókn­ar­vert vinnu­um­hverfi. Til lengri tíma þarf auk þess að hvetja ungt fólk til að sækja sér mennt­un í tækni­grein­um. Það verður til að mynda gert með sér­stöku hvatn­ingar­átaki inni í mennta­stofn­un­um lands­ins, allt niður á grunn­skóla­stig.

Markaðssókn Íslands í út­lönd­um á svo ekki ein­ung­is að sækja ferðamenn til okk­ar fal­lega lands. Ísland á líka að vera land ný­sköp­un­ar í aug­um heims­ins. Þar sem er gott að sækja landið heim en líka að setj­ast hér að, vinna sér­hæfð störf í góðu starfs­um­hverfi og fjár­festa í ein­stök­um tæki­fær­um. Búa til verðmæti og festa ræt­ur.

Við erum í dauðafæri.

Pistillinn „800 sérfræðingar óskast” birtist í Morgunblaðinu 15. febrúar 2022.