Lærdómur, ótti og umræða

Á morgun, 25. febrúar, verður öðru sinni öllum opinberum sóttvarnatakmörkunum aflétt. Það eru vissulega tímamót, rétt tæpum tveimur árum eftir að fyrsta smitið vegna kórónuveirufaraldursins greindist hér á landi og þegar smit hafa aldrei verið fleiri.

Það er ekkert launungarmál að ég ásamt öðrum þingmönnum og ráðherrum Sjálfstæðisflokksins hef velt upp spurningum um réttmæti strangra takmarkana þegar fyrir lá að áhrif faraldursins voru ekki jafn alvarleg og áður var talið. Stjórnmálamenn sjálfir hafa ekki alltaf réttu svörin – en þeir eiga að spyrja réttu spurninganna, sérstaklega þegar kynntar eru áætlanir um að skerða verulega frelsi borgaranna og setja heilu og hálfu atvinnugreinarnar í uppnám. Það er ekki – og á aldrei að vera – einföld ákvörðun að skerða frelsi fólks.

Við þurfum að draga lærdóm af þeim tíma sem liðinn er og fljótt á litið myndi ég áætla að um það ríki sátt. Hvar sem við röðum okkur á hinn hefðbundna ás stjórnmála, þá eigum við það sameiginlegt að bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti og það er því eðlilegt að við ræðum af yfirvegun um þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í, hvar mistök voru gerð, hvað tókst vel og svo framvegis. Það liggur ljóst fyrir að núverandi staða verður ekki rakin til þeirrar ákvörðunar að viðhalda takmörkunum lengur en þörf var á, heldur fyrst og fremst til þess að veiran skæða bar af sér nýtt afbrigði.

Annar veigamikill þáttur í þessu er óttinn sem skapast hefur. Þar bera stjórnvöld töluverða ábyrgð og ég get ekki vikið mér undan henni hafandi setið í ríkisstjórn á þessum tíma. Við vitum að það eiga sér stað óvæntir atburðir, jafnvel atburðir sem setja líf okkar úr skorðum til skemmri eða lengri tíma, en getum þó ekki látið óttann stjórna ákvörðunum okkar eða lífsháttum til lengri tíma. Við verðum að meta ótta við veiruna í réttu samhengi við aðrar áskoranir í lífinu, hvort sem þær hafa áhrif á heilsufar eða annað. Við þurfum því að finna leiðir til að yfirstíga ótta og halda áfram með líf okkar.

Enn annað er umræðuhefðin sem skapast hefur í faraldrinum. Það er enginn sem getur tekið sér það vald að ákveða hvað má ræða og hvað ekki, hvenær, hvernig og á hvaða vettvangi. Það er enn verið að safna saman vísindalegum gögnum um upphaf, áhrif og afleiðingar veirunnar, við vitum ekki enn hvort og þá hvaða áhrif veikindi hafa til lengri tíma og þannig mætti áfram telja. Við vitum heldur ekki hvaða efnahagslegu eða félagslegu afleiðingar aðgerðir hins opinbera munu hafa, en þær eru ekki síður mikilvægar.

Við fögnum vissulega núverandi stöðu en vonum um leið að staða síðustu tveggja ára hafi kennt okkur að takast á við áskoranir með fjölbreyttari hætti en þeim að grípa strax til skerðingar á frelsi fólks. 

Pistillinn „Lærdómur, ótti og umræða” birtist í Morgunblaðinu 24. febrúar 2022.