Sókn er besta vörnin

Við stöndum svo vel að búa við ákveðið forskot þegar kemur að því að takast á við loftslagsvandann og við okkur blasa mörg sóknarfæri í orkuskiptum. Ári grænnar iðnbyltingar var ýtt úr vör af Samtökum iðnaðarins í síðustu viku en segja má að síðasta iðnbylting hafi hafi orðið á Íslandi á síðustu öld þegar við réðumst í uppbyggingu á öflugu raforkukerfi og hitaveitu – og lögðum þannig grunninn að orkusæknum iðnaði.

Með því að byrja að nýta fallvötnin og jarðvarmann fyrir alvöru tókum við stórt stökk fram á við í lífsgæðum. Frá því Búrfellsvirkjun var tekin í notkun 1969 og álframleiðsla hófst í Straumsvík hefur landsframleiðsla á mann vaxið um 50% meira hér á landi en annars staðar í Evrópu. Það vill svo til, að sú bylting er grundvöllurinn að forskoti okkar í dag þegar við erum stödd í árdögum grænnar iðnbyltingar.

Orkan er aflgjafi verðmætasköpunar og því fylgja fjölmörg tækifæri, einmitt vegna þess að okkur bar gæfa til þess að virkja sjálfbæra og endurnýjanlega orku. Við höfum því góðan grunn til að byggja á fyrir næstu iðnbyltingu. Við höfum aldrei haft sterkari stöðu sem samfélag og höfum staðið af okkur mikla storma undanfarin ár. Og ef rétt er á spilum haldið mun sú iðnbylting sem er að hefjast styrkja þá stöðu enn frekar og marka nýja lífskjarasókn.

Við þurfum – og munum – leggja höfuðáherslu á orkuskipti í vegasamgöngum, sjávarútvegi og flugsamgöngum. Okkur hefur gengið vel hvað varðar nýskráningar raf- og tengiltvinnbíla, þar sem við erum í öðru sæti á eftir Norðmönnum. En betur má ef duga skal. Við höfum stutt við innviðauppbyggingu fyrir rafbíla og í höfnum landsins, en eigum þó enn nokkuð í land í þeim efnum, og við þurfum að huga að þungaflutningum og bíla- og vinnuvélaflota fyrirtækja. Þessar lausnir eiga sumar hverjar eftir að koma fram, en því hagstæðara sem umhverfið er fyrir iðnað og nýsköpun því fyrr munum við sjá þær lausnir.

Við þurfum líka að hugsa út fyrir kassann og leita fleiri leiða til að bæta lífskjör. Ríkisstjórnin hefur mótað þá stefnu að viðhalda endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar, ívilnunum til grænna fjárfestinga og efla grunnsjóði í rannsóknum, nýsköpun og öðrum þáttum sem ýta undir frekari framfarir. Þá viljum við auðvelda íslenskum fyrirtækjum að ganga að nauðsynlegri sérfræðiþekkingu og í því skyni verður erlendum sérfræðingum auðveldað að setjast að hér á landi og starfa hjá íslenskum fyrirtækjum. Allt eru þetta skref í því að gera umhverfið betra þannig að hægt sé að bæta lífskjör á Íslandi enn frekar. Með þekkingu, hugviti, tækni – og öflugum iðnaði erum við í góðri stöðu til þess að byggja undir góð lífskjör og skapa spennandi starfstækifæri til framtíðar.

Pistillinn „Sókn er besta vörnin” birtist í Morgunblaðinu 15. mars 2022.