Ein helsta forsenda þess að fólk geti átt raunverulegt val um hvar það býr og starfar er að það sé öflugt atvinnulíf sem víðast um land og að horfur séu á því að það geti vaxið enn frekar. Það er því mikilvægt að leggja áherslu á að styðja við frjótt umhverfi um allt land, þannig að fjölbreyttar atvinnugreinar geti dafnað og nýskapandi hugsun laðað fram ný tækifæri. Hugvitið er ótakmörkuð auðlind og hagnýting þess mun styrkja stoðir íslensks samfélags og skapa fleiri verðmæt störf um land allt.
Lóa, nýsköpunarsjóður fyrir landsbyggðina, ber því nafn með rentu. Fyrsta úthlutun úr Lóu í fyrra leysti ákveðna krafta úr læðingi á landsbyggðinni og má því segja að hún hafi komið með sólskin í dali og blómstur í tún. Lóu er ætlað að styðja við nýsköpun á forsendum svæðanna sjálfra, auka samkeppnishæfni innan þeirra, möguleika á nýjum og spennandi störfum. Allt fer þetta saman við stuðning og fjárfestingar einkaaðila.
Verkefnin sem hlutu stuðning Lóu voru t.a.m. að leitast við að efla hefðbundnar atvinnugreinar með aukinni verðmætasköpun, efla nýtingu hráefna, auka tækni, draga úr losun, auka afþreyingarmöguleika, byggja upp tengingar við alþjóðleg verkefni, fyrirbyggja sjúkdóma og efla nærumhverfi sitt með stuðningi við frumkvöðla og nýsköpun með samstarfsvettvangi.
Með nýsköpunarstyrk Lóu stuðlum við að frjórri jarðvegi fyrir nýjar hugmyndir og nýsköpun á landsbyggðinni. Lóa eflir atvinnulíf og verðmætasköpun sem byggist á hugviti, þekkingu og nýrri færni á forsendum svæðanna sjálfra. Styrkirnir veita aukinn slagkraft inn í nýsköpunarverkefni og stuðla að auknu samstarfi um land allt. Nú hefur aftur verið opnað fyrir umsóknir í Lóu og umsóknarfrestur er til og með 11. maí.
Við höfum á liðnum árum séð fjölmörg dæmi um það hvernig hægt er að virkja hugvitið með öflugum hætti og þannig að það leggi grunn að betri og bjartari von fyrir þau sem vilja hafa aukið val um búsetu. Til viðbótar við hefðbundin störf í sjávarútvegi, landbúnaði, í ferðaþjónustu, verslun og þjónustu verða til störf sem engan óraði fyrir að yrðu til en skapast þar sem forsendur eru fyrir hendi. Sú vegferð er hafin og henni er hvergi nærri lokið.
Ég hef fengið að kynnast nokkrum verkefnum og kraftinum sem býr á landsbyggðinni, nú síðast í þessari viku þar sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ferðast um landið til að hitta frambjóðendur og kjósendur – og heimsækja fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. Út um allt land sér fólk tækifæri til að efla atvinnulíf og menningu, styrkja búsetu og móta sér framtíð. Það er því mikilvægt að fjárfestar og aðrir aðilar sjái sér hag í því að styðja við þá uppbyggingu og þá miklu möguleika sem þar eru fyrir hendi.
Pistillinn „Lóan er komin á landsbyggðinni” birtist í Morgunblaðinu 3. maí 2022.