Nýsköpun til betri heilbrigðisþjónustu

Þúsundir Íslendinga eru nú á biðlistum eftir bráðum aðgerðum. Í þeim hópi er fólk sem er svo sárkvalið að hver einasti dagur er þjáning. Svona hefur ástandið verið árum saman og versnar ef eitthvað er frá ári til árs.

Á hverju ári fjárfestir hið opinbera 30 milljarða í nýsköpun í gegnum nýsköpunarsjóði og endurgreiðslu á tekjuskatti vegna rannsókna og þróunar. Þessir fjármunir skipta sköpum fyrir lítil og stór fyrirtæki, hvort sem það er til að styrkja reksturinn fyrsta rekstrarárið eða til að draga úr kostnaði við flóknar og dýrar rannsóknir. En það er ekki nóg að tala um nýsköpun eða setja fjármagn í nýsköpun, heldur verðum við að tryggja að samfélagið innleiði nýsköpun. Þar gætum við staðið okkur miklu betur.

Ég hef að undanförnu rætt við fjöldann allan af frumkvöðlum sem eru í ýmiss konar nýsköpun tengdri heilbrigðisþjónustu. Frumkvöðlar sem vilja nota hugvit og nýsköpun til að efla heilbrigðiskerfið með hagkvæmum hætti. Á sama tíma og mörg þessara fyrirtækja ná góðum árangri á erlendri grundu lenda þau á ósýnilegum vegg hins opinbera hér á landi. Eitt þeirra er Kerecis sem framleiðir sáraroð til að græða sár hraðar en eldri lausnir. Fyrirtækið selur vörur sínar um allan heim en þegar kemur að innanlandsmarkaði eru fáir hvatar til að nýta þessa lausn. Það skýtur skökku við þegar við sem samfélag ákveðum að fjárfesta í nýsköpun en nýtum svo ekki þær lausnir sem verða til fyrir okkar eigin kerfi.

Við megum engan tíma missa því spár um vöxt Landspítalans fram til ársins 2040 sýna að vegna öldrunar þjóðarinnar mun kostnaður aukast um 90% ef ekkert verður að gert. Greining McKinsey-fyrirtækisins sýnir hins vegar að ef reksturinn er lagaður með stafrænum lausnum og nýsköpun þá muni þessi gríðarlega aukning þjónustu ekki leiða til nema 30% hækkunar heildarkostnaðar árið 2040. Lykillinn að því að halda kostnaði í lágmarki er hugvitið. Hugvitið getur þannig sparað Landspítalanum nærri 50 milljarða, á hverju einasta ári.

Til að þetta geti orðið að veruleika hef ég ákveðið að styrkja sérstaklega innleiðingu nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu og þar með aukna skilvirkni og bætta þjónustu. Það verður gert með því að frumkvöðla- og sprotafyrirtæki í nýsköpun geti sótt um stuðning, en styrkveitingin er háð því skilyrði að fyrirtækin eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem skuldbinda sig til að innleiða þá nýsköpun sem styrkur er sóttur um í. Veittir verða allt að 10 m.kr styrkir til einstakra verkefna sem hafi það markmið að teknar séu í notkun nýjar vörur, ný þjónusta eða nýjar hugbúnaðarlausnir sem geta bætt þjónustu og aukið hagkvæmni í rekstri. Sérstök áhersla verður lögð á að styðja við samstarf opinberra aðila og einkaaðila um land allt. Markmiðið er skýrt: við eigum að nota nýsköpun til að bæta heilbrigðisþjónustuna.

Pistillinn „Nýsköpun til betri heilbrigðisþjónustu” birtist í Morgunblaðinu 21. maí 2022.