Ert þú í slæmu sambandi?

Í augnablikinu næst ekki í farsímann,“ eru orð sem eflaust mörg kannast við þegar reynt er að ná í einhvern í síma. Annað kunnuglegt hljóð er þegar símtalið slitnar áður en það hefst með þremur pípum. Svo heyrast viðkomandi seinna og annar nefnir að hann hafi verið að keyra einhvers staðar þar sem ekki næst samband. Við höfum öll átt þessi samtöl, oftar en einu sinni.

Þessu þarf að breyta, enda snýst farsímasamband ekki bara um þægindi heldur öryggi. Á dögunum kynntum við mikilvægar úrbætur á farsímaþjónustu með samstarfi Neyðarlínunnar og farsímafélaganna þriggja, í þeim tilgangi að tryggja gott farsímasamband á fáförnum og afskekktum stöðum. Fjöldamörg dæmi eru um að ekki hafi verið hægt að hringja í Neyðarlínuna eftir slys vegna þess að annaðhvort hafi ekki verið símasamband á staðnum eða aðeins hjá einu símafélaganna. Þrátt fyrir að búa við eitt mesta aðgengi að farsíma- og farneti í heimi hafa verið of mörg dæmi um þetta.

Farsímasamband nær nú til 99,99% lögheimila og 98% vega utan þéttbýlis. Það er þó ekki nóg til að tryggja öryggi. Þjóðvegir á forræði Vegagerðar utan þéttbýlis eru rúmlega 12.000 kílómetrar að lengd. Tveggja prósenta þjónustuleysi jafngildir því um 240 kílómetrum. Til að setja þessar stærðir í samhengi þá jafngildir það vegalengdinni milli Akureyrar og Egilsstaða. Þá er ótalið umfang vega á forræði sveitarfélaga sem er álíka mikið.

Víðast hvar um landið eru markaðslegar forsendur fyrir uppbyggingu og rekstri farsímakerfa, en þó eru önnur svæði þar sem slíkar forsendur eru ekki til staðar. Samstarfsverkefni gengur út á það að Neyðarlínan tryggir innviði utan markaðssvæða og fjarskiptafyrirtækin veita þar farsímaþjónustu um einn sendi sem allir farsímanotendur geta notfært sér á jafnræðisgrunni, óháð því hjá hvaða fjarskiptafyrirtæki áskriftin er.

Markmið stjórnvalda með þessu er fyrst og fremst bætt öryggi þannig að sem flestir geti sem víðast átt samskipti við Neyðarlínuna í neyðarnúmerið 112. Jafnframt stuðlar þessi uppbygging að aukinni dekkun og gagnahraða fyrir almenna farsímanotkun, sem um leið bætir lífsgæði hér á landi og þeirra sem um landið ferðast.

Annar stór áfangi náðist á dögunum en það var þegar nýi fjarskiptasæstrengurinn Iris var tengdur hér við land. Slíkir strengir gera milljarða samfélögunum sem og litlum eyþjóðum mögulegt að eiga hnökralaus og nánast tafarlaus samskipti við önnur samfélög um allan heim. Í nýjum streng felst verulega bætt öryggi sambands okkar við umheiminn en ekki síst felast líka í því tækifæri til frekari framfara.

Örugg samskipti við Neyðarlínuna, hvort annað og umheiminn eykur öryggi og lífsgæði hér á landi, sem er jú það verkefni sem stjórnmálamönnum er ætlað að sinna.

Pistillinn „Ert þú í slæmu sambandi?” birtist í Morgunblaðinu 31. maí 2022.