Hún er veik. Hann er sterkur.

Hann er snjall, hún er heimsk. Hann er sjálfsöruggur, hún er óörugg. Svona þýðir þýðingarvélin, Google Translate, orðin veikur og sterkur, klár og heimskur, sjálfsöruggur og óöruggur. Jákvæð og persónulýsandi orð eru þýdd í karlkyni en neikvæð persónulýsandi orð eru þýdd í kvenkyni. Eðlilega vekur þetta athygli og varpar ljósi á veruleika sem við þurfum að breyta. Það voru BA-nemar í almennum málvísindum sem bentu á þetta í ritgerð sinni á dögunum. Þýðingarvélar byggja meðal annars á textum víða á netinu, úr greinasöfnum og samfélagsmiðlum, og endurspegla því meðal annars hvernig fólk tjáir sig. Sem dæmi má nefna að aðeins 13% höfunda á Wikipediu eru kvenmenn og það eru að mestu leyti karlmenn sem tjá sig um þjóðfélagsmál á hinum ýmsu miðlum - og fóðra þannig meðal annars þýðingarvélarnar. Jafnrétti er ekki sjálfgefið, við þurfum alltaf að vera á vaktinni. Kynjahalli leynist víða og virkar í báðar áttir. Við sjáum þetta víða í samfélaginu. Í háskólunum hallar á karlmenn í námi á sviði menntunar og heilbrigðisgreina og það vantar fleiri konur í raunvísindi. Þessi skipting endurspeglast síðan einnig í atvinnulífinu. Karlmenn eru í miklum meirihluta í tæknigeiranum og það endurspeglast m.a. í endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar en 75% af umsækjendum eru karlmenn. Stuðningskerfi nýsköpunar á Íslandi er víðfemt en það er mjög misjafnt hvernig kynin nýta sér þetta stuðningsnet. Þessu vil ég breyta. Til dæmis eru tækifæri til þess að líta til aukinnar fjölbreytni hvað varðar atvinnugreinar og þarfir þeirra. Við náum aldrei árangri ef við nýtum aðeins helming mannauðsins. Ég trúi því að lykillinn að bættum lífsgæðum og fleiri tækifærium sé að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Til að svo megi verða er mikilvægt að allir taki þátt og hafi til þess jöfn tækifæri. Sköpum farveg þar sem konur og karlar koma að málunum. Þannig tökum við þátt í því að fjölga tækifærum og bæta lífsgæði fólks. Án þátttöku allra endurspeglar hugvitið ekki raunveruleg tækifæri samfélagsins. Allt virkar þetta sem ein heild. Við getum lagt okkar af mörkum til að fjölga konum í tæknigeiranum og að sama skapi viljum við fjölga þeim konum sem taka þátt í þjóðfélagsumræðunni. Ef tölvurnar lesa neikvæðan tón í garð kvenna úr þátttöku í þjóðfélagsumræðum, þá bendir allt til þess að fólk geri það líka, þar á meðal það unga fólk sem á eftir að móta samfélagið í framtíðinni. Það er ekki nóg að segja að konur þurfi bara að vera duglegri við að gera eitthvað, heldur  þurfum við að skapa vettvang þar sem hindrunum í vegi kynjanna er rutt á brott - hvort sem það er í tækniheimi eða raunheimi. Það er verkefni okkar allra. 

Pistillinn „Hún er veik. Hann er sterkur.” birtist í Morgunblaðinu 9. júní 2022.