Bjór og breytingar

Að ljúka þingvetri er dálítið eins og að klára lokapróf. Það er allur gangur á því hversu mikil eða rýr uppskeran er, sum verkefni klárast og önnur ekki, sum eru látin bíða en önnur fara í tætarann. Sem stjórnmálamaður met ég þó ekki árangur eftir því hversu mörg frumvörp klárast eða hversu mörgum skýrslum maður skilar. Það er rangur mælikvarði að miðast við, þó of margir freistist til þess.

Það er betra – og mikilvægara – að miðast við það hvort að frumvörpin sem samþykkt eru feli í sér framfarir, aukið frelsi, lægri álögur, afnám hindrana, séu til þess fallin að gefa lífið einfaldara og betra og þannig mætti áfram telja.

Það var til dæmis gaman að sjá frumvarp samþykkt sem gefur brugghúsum landsins leyfi til að selja vörur sínar á framleiðslustað. Ég lagði þetta mál fyrst fram sem dómsmálaráðherra fyrir tveimur árum en þetta er stærsta breytingin á áfengislöggjöfinni frá því að bjórinn var leyfður 1989. Fyrir utan það að fela í sér aukið frelsi mun þetta styrkja stoðir sívaxandi atvinnugreinar og fjölga störfum á landsbyggðinni.

Alþingi samþykkti einnig frumvarp mitt um fjarskipti, sem felur í sér virkari samkeppni, hagkvæmar fjárfestingar, aukin útbreiðsla háhraðanets og betra aðgengi notenda að fjarskiptaþjónustu á hagkvæmara verði. Allt felur þetta í sér mikilvægar framfarir sem mun gera líf fólks og fyrirtækja betra. Nú þegar má sjá ávöxt þessara breytinga með nýju samstarfi fjarskiptafyrirtækja og Neyðarlínunnar sem stuðlar að úrbótum á farsímasambandi á fáförnum og afskekktum stöðum á þjóðvegum.

Annað framfaraskref felur í sér aukna endurgreiðslu á rannsóknum og þróun, en endurgreiðslan felur nú í sér 35% af kostnaði. Ég hef á liðnum vikum og mánuðum ítrekað talað um að hugverkaiðnaður geti orðið stór þáttur í hagkerfinu okkar, iðnaður sem er knúinn áfram af nýsköpun og framsækni. Endurgreiðslan felur í sér aukin skref í þátt átt. Þá var Rammaáætlunin einnig samþykkt eftir níu ár af umræðum en gangi áætlanir hennar eftir munu hún bæta lífsskilyrði hér á landi verulega.

Allt eru þetta mikilvæg mál og það er hægt að líta með stolti yfir þingveturinn í heild sinni. Nú tekur við vinna við að einfalda regluverk enn frekar, auka frelsi og gera völlinn þannig úr garð gerðan að hægt sé að spila eftir ólíkum aðstæðum hverju sinni.

Pistillinn „Bjór og breytingar” birtist í Morgunblaðinu 18. júní 2022.