Á höttunum eftir frelsi

Það eru 18 ár liðin frá því að síðasta sveinsprófið var skráð í klæðskurði karla en 62 ár frá því að slíkt próf var skráð í klæðskurði kvenna. Þá eru rúm 50 ár liðin frá því að einhver lauk próf í leturgreftri. Þrátt fyrir það gilda enn reglur um löggildingu þessara greina – og annarra sem tekið hafa miklum breytingum í gegnum tíðina og kalla ekki endilega á að um þær gildi sérstök löggilding.

Í dag birtist í Samráðsgátt stjórnvalda tillaga mín um breytingar á reglugerð um löggiltar iðngreinar, þar sem lagt er til að afnema sumar þeirra og sameina aðrar undir hatti annarra og víðtækari iðngreina.

Þessar tillögur eru afrakstur vinnu sem ráðist var í eftir að Efnahags- og framkvæmdanefndin (OECD) skilaði úrbótatillögum í samkeppnismati landsins síðla árs 2020. Samkvæmt núgildandi lögum um handiðnað hafa aðeins meistarar, sveinar og nemendur í viðkomandi iðngrein rétt til iðnaðarstarfa í þeim greinum sem löggiltar hafa verið með reglugerð.

Við eigum heimsmet í fjölda iðngreina sem krefjast löggildingar. Sumar þessara greina fyrirfinnast ekki lengur í atvinnulífinu, hafa ekki verið kenndar í fjölda ára eða hafa tekið slíkum breytingum að forsendur teljast ekki lengur fyrir hendi fyrir löggildingu þeirra. Má þar nefna feldskurð, glerslípun og speglagerð, hljóðfærasmíði, myndskurð, málmsteypun, mótasmíði, leturgröft og hattasaum.

Í vinnu okkar litum við til þess hvort námskrár væru til fyrir viðkomandi grein og í hvaða greinum fáir eða engir hafa lokið sveinsprófi síðastliðna tvo áratugi. Jafnframt var skoðað hvort rökstyðja mætti lögverndun viðkomandi iðngreina með vísan til almannahagsmuna, sér í lagi almannaheilbrigðis og öryggis. Niðurstaðan er sú að gangi tillögurnar eftir verða sautján iðngreinar lagðar af eða sameinaðar öðrum sem löggiltar greinar.

Í flestum ef ekki öllum þeim greinum sem nú verða afnumdar eða einfaldaðar starfa einstaklingar án tilskilinna réttinda sem eiga á hættu ákæru um brot á ákvæðum laga um handiðnað.

Breytingarnar opna á tækifæri fyrir fleiri til að starfa óáreittir í sinni iðngrein án kröfu um löggildingu. Hluti af því að ýta undir frekari framfarir og frelsi er að gefa fólki svigrúm til að starfa í ákveðnum greinum. Við erum að einfalda og aðlaga kerfið að nútímanum, og um leið að styrkja samkeppnishæfni Íslands í samanburði við aðrar þjóðir.

Stjórnmálamenn eru mjög duglegir, stundum of duglegir, að setja ný lög og nýjar reglugerðir um hluti en við erum alltof rög við að skoða lagasafnið og meta hvað má fella úr gildi eða einfalda. Við eigum að draga úr hömlum og auka samkeppni. Þannig stuðlum við að framþróun og aukum verðmætasköpun.

Pistillinn „Á höttunum eftir frelsi” birtist í Morgunblaðinu 28. júní 2022.