Að taka ákvörðun um að hefja háskólanám er stór ákvörðun, jafnvel ein sú stærsta sem við tökum í lífinu. Við hefjum nám með væntingar um framtíðina og lítum svo á að með þeirri menntun séum við betur í stakk búin til að takast á við lífið og þær áskoranir sem það færir okkur.
Það er því mikilvægt að taka vel ígrundaða ákvörðun um hvaða nám hentar manni. Ekki er gott að hugsa til þess að einhver með drauma og þrár fari í nám en finni síðan ekki starf við hæfi að því loknu. Jafnvel þó svo að við búum við mikla hagsæld og hægt sé að mennta sig hvenær sem er á lífsleiðinni þá erum við sammála um að það að stunda nám í fagi sem hentar manni ekki er tímasóun. Tíminn er eitt af því sem við fáum ekki til baka. Val okkar um háskólanám þarf því að byggjast á fjölbreyttum og haldgóðum upplýsingum. Rétt námsval í upphafi háskólanáms er til þess fallið að draga úr brottfalli og stuðla að betri líðan nemenda í námi og vonandi einnig að námi loknu.
Síðastliðið vor fór af stað vinna í þeim tilgangi að hefja undirbúning að nýju fjármögnunarlíkani háskóla. Niðurstaða vinnunnar var að eitt af fyrstu skrefunum væri að búa til sameiginlega innritunargátt allra háskóla landsins. Ég átti í framhaldinu samtal við rektora allra háskóla sem tóku vel í hugmyndina. Stefnt er að því að notkun gáttarinnar hefjist næsta vor en um er að ræða miklar framfarir á sviði upplýsingatækni sem hjálpar okkur að taka betri ákvarðanir fyrir líf okkar. Í stað þess að sækja um á vef hvers skóla fyrir sig velja nemendur námsleið og sækja um í gegnum Island.is. Með þessu móti fá umsækjendur betri mynd af námsframboði í landinu, hvaða kröfur þeir verði að uppfylla, hvernig skipulagi náms og námsfyrirkomulags sé háttað og fleira. Þá verður í gáttinni tenging við menntasjóð, tölfræði um nám, þróun á vinnumarkaði og starfsvettvang brautskráðra stúdenta ásamt tækifærum til samþættingar prófgráða. Með þessu stuðlum við að betri undirbúningi nemenda, þeir fá greinargóðar upplýsingar um námstækifæri og atvinnumöguleika að námi loknu.
Þær framfarir sem í þessu felast eru einnig liður í þeirri stefnumörkun að fjármögnun íslenskra háskóla verði árið 2025 sem líkust því sem tíðkast hjá sambærilegum háskólum í öðrum ríkjum Norðurlanda. Fyrst og fremst gagnast hún þó framtíðarnemendum sem þurfa að taka mikilvægar ákvarðanir um framtíð sína. Við höfum séð mikið atvinnuleysi á meðal einstakra starfsgreina á meðan hugvitsfyrirtæki vantar starfsfólk í vinnu. Við vitum ekki alltaf hvernig vinnumarkaðurinn lítur út í framtíðinni, en við vitum að við getum gert betur í því að aðstoða ungt fólk við að taka þessar mikilvægu ákvarðanir.
Pistillinn „Að taka ákvörðun um framtíðina” birtist í Morgunblaðinu 24. ágúst 2022.