Framfarir og erlend fjárfesting

Þegar litið er á einstök framfaraskeið í sögu þjóðarinnar kemur í ljós hve frjáls utanríkisviðskipti og innstreymi erlends fjármagns hefur haft þar mikið að segja. Í byrjun síðustu aldar var erlent fjármagn drifkrafturinn að baki tæknibyltingu í sjávarútvegi og öðrum atvinnugreinum. Útlendingar kenndu okkur að leggja vegi, byggja brýr og hafnir, teikna og smíða hús, svo ekki sé minnst á aðrar iðngreinar og handverk á borð við brauð- og ölgerð. Margir settust hér að og urðu hluti af þjóðinni. Þegar skrúfað var fyrir frjáls viðskipti við útlönd og erlent áhættufjármagn hvarf úr landinu á kreppuárunum komu áratugir hafta og stöðnunar í kjölfarið.

Kostir beinnar erlendrar fjárfestingar eru ótvíræðir í samanburði við erlendar lántökur. Ný þekking og kunnátta fylgir fjárfestingunni, hún leiðir til aukinnar fjölbreytni atvinnulífsins og opnar nýja markaði fyrir útflutning. Stoðir efnahagslífsins verða fjölbreyttari og velmegun eykst. Erlendur aðili sem hættir fjármagni sínu í íslenskt fyrirtæki til lengri tíma er í rauninni að lýsa yfir stuðningi við íslenskt efnahagslíf og vilja til að byggja upp og efla nýsköpun í landinu.

Gildandi reglur um erlenda fjárfestingu eru fremur strangar í alþjóðlegum samanburði. Nefna má takmarkanir á eignarhaldi erlendra aðila í sjávarútvegi og einnig verður að hafa hugfast að fjölmörg atvinnustarfsemi er að mestu rekin af fyrirtækjum í eigu opinberra aðila. Þetta gildir t.d. um fyrirtæki í framleiðslu og dreifingu á raforku, svo og öflun og dreifingu á heitu og köldu vatni. Opinber rekstur er einnig ríkjandi hvað varðar vegakerfið, flugvelli, hafnir og flugumsjón, svo ekki sé minnst á heilbrigðiskerfið. Bent hefur verið á að aðeins tvö aðildarríki OECD búi við meiri hömlur hvað varðar erlenda fjárfestingu, en það eru Nýja-Sjáland og Mexíkó.

Áform um heildarlög varðandi rýni beinnar erlendrar fjárfestingar vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu voru nýlega kynnt í samráðsgátt stjórnvalda. Þau áform verður að skoða í ljósi alls framangreinds og einnig með tilliti til þess að nýsköpun í greinum sem hvíla á hugviti og sérhæfðri þekkingu verður að hafa aðgang að erlendu áhættufjármagni.

Áformin eru í sjálfu sér skiljanleg en útfærsla þeirra má ekki fæla útlendinga frá fjárfestingum í íslenskum fyrirtækjum. Við þurfum mjög á beinni erlendri fjárfestingu að halda eins og sagan kennir okkur. Nálgunin við þetta viðfangsefni má ekki vera á forsendum hræðslu við útlendinga eða skapa tyrfið og fráhrindandi lagaumhverfi. Fremur en að draga úr ættum við að hvetja erlenda fjárfesta til að koma hingað með fjármagn sitt með einföldu og skiljanlegu regluverki þó að jafnframt sé hugað að öryggishagsmunum þjóðarinnar.

Pistillinn „Framfarir og erlend fjárfesting” birtist í Morgunblaðinu 2. september 2022.