Hugrekki kvenna í Íran

Okkur hefur lengi verið kunnugt um ofbeldið sem konur þurfa að sæta af hálfu klerkastjórnarinnar í Íran. Þeim er refsað grimmilega fyrir að brjóta gegn ströngum reglum um klæðaburð. Daglega eru konur handteknar og færðar til yfirheyrslu fyrir þær sakir að víkja sér undan skyldunni til að ganga með hijab-höfuðslæðu.

Mahsa Amini, 22 ára kúrdísk kona, lést í haldi siðgæðislögreglunnar í Teheran fyrr í þessum mánuði. Hún var handtekin fyrir það eitt að hafa ekki hulið hár sitt nægilega að mati lögreglunnar. Aðeins tveimur klukkustundum eftir handtökuna fór Mahsa í dá. Hún var flutt á sjúkrahús þar sem læknar sögðu hana hafa fengið hjartaslag og heilablæðingu. Greint hefur verið frá því að hún hafi verið beitt miklu harðræði í bifreið lögreglunnar og á lögreglustöðinni.

Mikil mótmælaalda braust út í kjölfarið á þessum hræðilega atburði. Mótmælin hafa breiðst út um landið og aukin harka færst í viðbrögð stjórnvalda. Íranskar konur á öllum aldri hafa sýnt mikið hugrekki og tekið forystu í mótmælunum. Klerkastjórnin hefur virkjað herinn og látið skjóta á mótmælendur, en þær aðgerðir hafa ekki skilað árangri enn sem komið er. Krafa mótmælenda hefur einnig breyst og beinist nú ekki eingöngu að því að afnema skylduna til að hylja hár sitt heldur er krafist róttækra breytinga á stjórn landsins.

Í ljósi þess misréttis og þeirrar kúgunar sem íranskar konur þurfa að sæta af hálfu klerkastjórnarinnar er hugrekki þeirra einstakt og aðdáunarvert. Frá valdatöku klerkastjórnarinnar 1979 hafa þúsundir kvenna verið teknar af lífi vegna baráttu sinnar fyrir auknu umburðarlyndi og lýðræði. Andspyrna þeirra og fórnir hafa opnað augu og verið leiðarljós þeirrar kynslóðar íranskra kvenna sem nú er í fararbroddi í frelsisbaráttunni. Mikil óvissa ríkir um framhaldið í Íran og full ástæða er til að óttast að mótmælin verði brotin á bak aftur af enn meiri hörku. Óánægjan mun þó áfram krauma undir niðri og á endanum leiða til breytinga.

Segja má að nokkur þverstæða felist í því að sitja við tölvu í frjálsu samfélagi á Íslandi og ætla að ímynda sér hvernig það er að vera kona í Íran og búa þar við kúgun og ofbeldi af hálfu yfirvalda öllum stundum. Líklega er engin leið til að setja sig í þau spor búandi við öryggi og frelsi hér á landi. Dýrmætasta lexían kann þó að vera sú að þrátt fyrir að það séu mörg dæmi um það í sögunni að stjórnvöld hafi kúgað íbúa til lengri eða skemmri tíma – og gera sums staðar enn – þá kemur vonandi að þeim tímapunkti að fólk geti risið upp og varpað af sér okinu. Við sem búum þegar við frelsi eigum að styðja það með öllum mögulegum ráðum.

Pistillinn „Hugrekki kvenna í Íran” birtist í Morgunblaðinu 30. september 2022.

Styrkja framboðið

Það er hægt að styrkja framboðið með því að leggja inn á reikning þess.


Þeir sem styrkja framboðið fá í staðinn gjöf með merki framboðsins á meðan birgðir endast.  Um er að ræða derhúfur, stílabækur, penna og skyndihjálpartösku.

Hægt er að styrkja framboði beint með því leggja inná bankareikning framboðsins:  

Kennitala: 620616-0870

Reikningsnúmer: 0133-26-011882

Frambjóðandi má ekki taka við hærri styrkjum frá einstaka fyrirtæki eða lögaðila en sem nemur 400.000 kr. á ári. Birta ber nöfn allra fyrirtækja/lögaðila sem styrkja kosningabaráttu frambjóðandans.

Frambjóðandi má ekki taka við hærri styrkjum frá einstaklingum en sem nemur 400.000 kr. á ári. Birta skal nöfn einstaklinga sem veitt hafa styrki sem metnir eru á meira en 300.000 kr. til kosningabaráttunnar.