Lítil frænka mín segir mér oft skemmtilegar sögur af samskiptum sínum við börn og kennara, milli þess sem hún syngur hástöfum „í leikskóla er gaman, þar leika allir saman“. Þar fær hún að hnoða, leira og lita og líður augljóslega einstaklega vel, líkt og vonandi öðrum börnum í leikskólum landsins.
Í leikskólum starfar fjöldi fólks sem leggur sig fram á hverjum degi. Starfið í leikskóla er gefandi og skemmtilegt, en getur vissulega verið erfitt og krefjandi. Leikskólarnir eiga mikilvægan mannauð en þar er á sama tíma mikil mannekla. Talið er að það vanti um 1.500 leikskólakennara víða um land. Þá þurfum við einnig að hækka menntunarstig því Ísland er með eitt lægsta hlutfall menntaðra leikskólakennara í samanburði við önnur ríki innan OECD.
Það var því ánægjulegt að kynna, ásamt öðrum ráðherrum í síðustu viku, nýtt fagháskólastig í leikskólakennarafræðum, sem verður að veruleika næsta haust. Þetta er spennandi kostur, enda mikilvægt að við fjölgum valmöguleikum, bæði með styttra námi og með auknum sveigjanleika, þar sem hægt er að stunda nám samhliða vinnu. Þá skapar námið hvata til háskólanáms fyrir stærri hóp en áður sem ekki hefur átt kost á að mennta sig.
Námið er byggt upp þannig að nemendur geti sinnt því samhliða starfi sínu á leikskólum. Þannig geta nemendur lokið 60 einingum á tveimur árum sem eru að fullu metnar ef sótt er um í bakkalárnám í leikskólakennarafræði að fagháskólanámi loknu.
Fagháskólastiginu er ætlað að gera starfsfólki leikskóla, sem ekki hefur lokið stúdentsprófi, kleift að sækja styttra nám samhliða starfi. Fólki stendur til boða að fá stuðning við ástund námsins frá starfsfólki háskólanna, fræðslustofnunum í heimabyggð og viðkomandi sveitarfélagi sem skapar svigrúm til að sækja nám að hluta til á vinnutíma.
Fagháskólanám í leikskólakennarafræðum opnar tækifæri fyrir stóran hóp fólks til að mennta sig og fyrir sveitarfélög að bjóða upp á betri þjónustu. Þetta er því mikilvæg viðbót í íslenskt menntakerfi, ekki aðeins til að fjölga starfsfólki og hækka menntunarstig heldur er góð þjónusta á leikskólastiginu stórt jafnréttismál.
Litla frænka mín var að verða tveggja ára þegar hún loksins komst inn á leikskóla með tilheyrandi áhrifum á frænkur, frændur, ömmur og afa sem hún er svo heppin að eiga. En ekki síst aukið álag á foreldra sem vildu komast fyrr á vinnumarkaðinn aftur.
Nú opnast möguleikar fyrir starfsmenn leikskóla til að mennta sig án þess að taka sér frí frá störfum. Þetta skref leysir ekki allan vandann sem sveitarfélög standa frammi fyrir en er mikilvægur áfangi í að bjóða upp á styttra nám, fleiri tækifæri og styrkir starfsemi leikskóla til lengri tíma.
Pistillinn „Lausn í leikskólamálum” birtist í Morgunblaðinu 10. október 2022.