Mótum framtíðina

Það var áhrifa­mik­il stund fyr­ir mig þegar ég gekk inn í Laug­ar­dals­höll á minn fyrsta lands­fund, á köld­um en fal­leg­um degi í nóv­em­ber árið 2011. Ég var 21 árs og full til­hlökk­un­ar. Þá sat vinstri stjórn við völd í land­inu. Mik­ill hug­ur var í fólki á fund­in­um um það að sjálf­stæðis­stefn­an þyrfti að vera í önd­vegi á nýj­an leik. Nýt­um tæki­fær­in var kjör­orð fund­ar­ins og ég fann strax að þarna gat ég haft áhrif. Ég fann að ég vildi taka þátt í að móta framtíðina. Vinstri stjórn­in féll í næstu kosn­ing­um og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn varð burðarstólpi í ís­lensk­um stjórn­mál­um á ný. Á þeim rétt rúma ára­tug sem síðan hef­ur liðið hef­ur það verið gæfa þjóðar­inn­ar að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur verið leiðandi afl í þeim miklu fram­förum sem orðið hafa á flest­um sviðum þjóðfé­lags­ins.

Styrk­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins felst í því að hann er breiðfylk­ing sem skír­skot­ar til ákveðinna grunn­gilda sem eiga hljóm­grunn hjá þjóðinni. Þar ber hæst frelsi ein­stak­lings­ins og sjálf­stæði þjóðar­inn­ar auk annarra hug­sjóna sem eru óháð aldri, stétt og stöðu.

Frelsi ein­stak­lings­ins fel­ur í sér að við vilj­um skapa skil­yrði fyr­ir öfl­ugt at­vinnu­líf og verðmæta­sköp­un sem hvíl­ir á atorku ein­stak­ling­anna og á sam­taka­mætti þeirra. Verðmæt­in sem þannig verða til standa und­ir grunnþjón­ustu hins op­in­bera og þeirri hag­sæld sem við njót­um og búum við hér á landi.

Sjálf­stæði þjóðar­inn­ar birt­ist í þátt­töku okk­ar jafn­fæt­is öðrum full­valda þjóðum í marg­vís­legu alþjóðlegu sam­starfi. Þar leggj­um við áherslu á mik­il­vægi lýðræðis­legra stjórn­ar­hátta, frjálsra viðskipta, rétt­læt­is og mann­rétt­inda.

Sag­an kenn­ir okk­ur að blandað hag­kerfi eins og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur staðið fyr­ir og inn­leitt hér á landi stend­ur öðrum kerf­um fram­ar þegar kem­ur að hag­sæld, vel­meg­un og ör­yggi borg­ar­anna.

Við verðum að standa vörð um það sem áunn­ist hef­ur um leið og við verðum að þró­ast í takt við nýja tíma. Við verðum að laga okk­ur að þeim óumflýj­an­legu breyt­ing­um sem framtíðin mun bera með sér frem­ur en að ótt­ast þær. Við tök­umst á við framtíðina með opn­um hug á sama tíma og við stönd­um vörð um grunn­gild­in sem eiga jafn mikið er­indi árið 2022 og árið 1929. Þess vegna þarf lands­fund­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins líka að vera sam­tal við þjóðina. Við eig­um að fjalla um mál með þeim hætti að þau hafi skýra skír­skot­un í líf fólks en ekki láta deilu­mál um smá­atriði, hvort sem er inn­an flokka eða í al­mennu stjórn­mála­starfi, tefja frek­ari fram­far­ir í sam­fé­lag­inu.

Hlut­verk Sjálf­stæðis­flokks­ins er ekki að standa vörð um hug­mynd­ir sem þóttu einu sinni góðar. Við eig­um að gera grein­ar­mun á grunn­gild­um og ein­staka stefnu­mál­um eða úrræðum sem einu sinni virkuðu. Um leið og við ber­um virðingu fyr­ir sög­unni er mik­il­vægt að tak­ast á við nýja tíma og marka stefnu fyr­ir framtíðina. Það mun­um við gera í næstu viku á lands­fundi Sjálf­stæðis­flokks­ins þar sem framtíðin er mótuð.

Pistillinn „Mótum framtíðina” birtist í Morgunblaðinu 28. október 2022.