Það var áhrifamikil stund fyrir mig þegar ég gekk inn í Laugardalshöll á minn fyrsta landsfund, á köldum en fallegum degi í nóvember árið 2011. Ég var 21 árs og full tilhlökkunar. Þá sat vinstri stjórn við völd í landinu. Mikill hugur var í fólki á fundinum um það að sjálfstæðisstefnan þyrfti að vera í öndvegi á nýjan leik. Nýtum tækifærin var kjörorð fundarins og ég fann strax að þarna gat ég haft áhrif. Ég fann að ég vildi taka þátt í að móta framtíðina. Vinstri stjórnin féll í næstu kosningum og Sjálfstæðisflokkurinn varð burðarstólpi í íslenskum stjórnmálum á ný. Á þeim rétt rúma áratug sem síðan hefur liðið hefur það verið gæfa þjóðarinnar að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið leiðandi afl í þeim miklu framförum sem orðið hafa á flestum sviðum þjóðfélagsins.
Styrkur Sjálfstæðisflokksins felst í því að hann er breiðfylking sem skírskotar til ákveðinna grunngilda sem eiga hljómgrunn hjá þjóðinni. Þar ber hæst frelsi einstaklingsins og sjálfstæði þjóðarinnar auk annarra hugsjóna sem eru óháð aldri, stétt og stöðu.
Frelsi einstaklingsins felur í sér að við viljum skapa skilyrði fyrir öflugt atvinnulíf og verðmætasköpun sem hvílir á atorku einstaklinganna og á samtakamætti þeirra. Verðmætin sem þannig verða til standa undir grunnþjónustu hins opinbera og þeirri hagsæld sem við njótum og búum við hér á landi.
Sjálfstæði þjóðarinnar birtist í þátttöku okkar jafnfætis öðrum fullvalda þjóðum í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi. Þar leggjum við áherslu á mikilvægi lýðræðislegra stjórnarhátta, frjálsra viðskipta, réttlætis og mannréttinda.
Sagan kennir okkur að blandað hagkerfi eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir og innleitt hér á landi stendur öðrum kerfum framar þegar kemur að hagsæld, velmegun og öryggi borgaranna.
Við verðum að standa vörð um það sem áunnist hefur um leið og við verðum að þróast í takt við nýja tíma. Við verðum að laga okkur að þeim óumflýjanlegu breytingum sem framtíðin mun bera með sér fremur en að óttast þær. Við tökumst á við framtíðina með opnum hug á sama tíma og við stöndum vörð um grunngildin sem eiga jafn mikið erindi árið 2022 og árið 1929. Þess vegna þarf landsfundur Sjálfstæðisflokksins líka að vera samtal við þjóðina. Við eigum að fjalla um mál með þeim hætti að þau hafi skýra skírskotun í líf fólks en ekki láta deilumál um smáatriði, hvort sem er innan flokka eða í almennu stjórnmálastarfi, tefja frekari framfarir í samfélaginu.
Hlutverk Sjálfstæðisflokksins er ekki að standa vörð um hugmyndir sem þóttu einu sinni góðar. Við eigum að gera greinarmun á grunngildum og einstaka stefnumálum eða úrræðum sem einu sinni virkuðu. Um leið og við berum virðingu fyrir sögunni er mikilvægt að takast á við nýja tíma og marka stefnu fyrir framtíðina. Það munum við gera í næstu viku á landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem framtíðin er mótuð.
Pistillinn „Mótum framtíðina” birtist í Morgunblaðinu 28. október 2022.