Á næsta ári hefst undirbúningur að umfangsmikilli viðbragðsæfingu þar sem sett verður á svið atburðarás vegna rofs á net- og símasambandi við útlönd. Aðgerðin nefnist „Ísland ótengt“ og krefst mikils og víðtæks undirbúnings fjölmargra stofnana og fyrirtækja. Í sem stystu máli mun hún leiða í ljós hvað gerist ef landið verður skyndilega sambandslaust við umheiminn. Markmiðið er að viðbrögð við skyndilegu sambandsleysi við önnur lönd verði eins raunhæf og markviss og frekast er kostur.
Æfingin „Ísland ótengt“ er meðal 64 aðgerða í fyrstu aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í netöryggi sem ég kynnti á ráðstefnu um netöryggismál í síðustu viku. Aðgerðaáætlunin hvílir á Netöryggisstefnu Íslands fyrir árin 2022-2037 sem gefin var út í febrúar. Aðgerðaáætlunin stefnir annars vegar að því að hér á landi sé afburða hæfni og nýting á netöryggistækni og hins vegar að því að hér sé öruggt netumhverfi.
Traust netöryggismenning og netöryggisvitund, öflugri menntun, rannsóknir og þróun, þjónusta og nýsköpun er meðal markmiða sem aðgerðirnar eiga að stuðla að. Þá er lögð sérstök áhersla á netöryggisvitund og vernd barna og er t.a.m. stefnt að því að þróað verði fjölbreytt námsefni um netöryggi á öllum skólastigum.
Öruggt netumhverfi á Íslandi er okkur mikilvægt og aðgerðirnar lúta að miklu leyti að öflugri löggæslu, vörnum og þjóðaröryggi ásamt skilvirkum viðbrögðum við atvikum og traustu lagaumhverfi. Til dæmis fela aðgerðir í sér greiningu og endurmat á valdheimildum stjórnvalda vegna alvarlegra netárása og hvort ákvæði almannavarnalaga þarfnist endurskoðunar með tilliti til þróunar í stafrænni tækni. Þá stendur til að endurskoða regluverk um starfsemi hýsingaraðila með staðfestu á Íslandi til að koma í veg fyrir brotastarfsemi í skjóli nafnleyndar.
Veikasti hlekkur netöryggis á Íslandi er líkt og annars staðar fólginn í vanþekkingu, mannlegum mistökum og of miklu trausti í netnotkun. Stærstu tækifærin til úrbóta liggja því í eflingu á hæfni og vitund alls almennings um net- og upplýsingaöryggi.
Netöryggismál ná þess vegna til alls samfélagsins og verða sífellt flóknari og víðtækari, t.d. með tilkomu gervigreindar. Þess vegna er mikilvægt að hafa skýra framtíðarsýn varðandi netöryggismál þjóðarinnar. Sú sýn felur í sem stystu máli í sér að þjóðin búi við netöryggi sem einkennist af öflugri öryggismenningu, traustum netvörnum og löggæslu, virku samstarfi, innanlands og alþjóðlega, og traustri löggjöf sem stuðlar að nýsköpun og framþróun í þjónustu á netinu.
Árangursrík framkvæmd aðgerða í netöryggi mun leiða til stórstígra framfara til aukins öryggis alls samfélagsins og færa Ísland framar í alþjóðlegum samanburði.
Pistillinn „Ótengt Ísland” birtist í Morgunblaðinu 7. nóvember 2022.