Þjóðir sem framkvæma!

„Singa­púr og Ísland eiga margt sam­eig­in­legt. Hvort tveggja eru litl­ar þjóðir sem búa við ör­yggi í lönd­um sín­um, reiða sig á út- og inn­flutn­ing og leggja mikla áherslu á mennt­un og ný­sköp­un. Þá eru þetta þjóðir sem fram­kvæma!”

Sá sem mælti þessi orð við mig í Singa­púr á dög­un­um hef­ur búið og starfað sem alþjóðleg­ur sér­fræðing­ur á báðum stöðum. Sjálfsagt hef­ur hann lög að mæla en á sama tíma er margt sem þjóðirn­ar geta lært hvor af ann­arri. Ég var þarna stödd til að kynna mér hvernig Singa­púr hef­ur staðið að því að bæta um­hverfi ný­sköp­un­ar. Stefn­an sem fylgt hef­ur verið hef­ur leitt til eft­ir­tekt­ar­verðs ár­ang­urs og eflt hug­vits­drifið hag­kerfi lands­ins til muna. Á síðasta ára­tug hef­ur landið skipað sér í fremstu röð á því sviði.

Árang­ur­inn á ræt­ur að rekja til öfl­ugs há­skólaum­hverf­is og sam­vinnu við alþjóðlega há­skóla á heims­mæli­kv­arða. Stjórn­völd í Singa­púr hafa markað og fylgt eft­ir lang­tíma-ný­sköp­un­ar­stefnu sem m.a. miðar að því að laða rann­sókna­tengd­ar há­tækni­grein­ar, iðnað, rann­sókn­ir og alþjóðlega fjár­festa til lands­ins. Þessi stefna hef­ur skilað góðum ár­angri. Singa­púr með sín­ar 5,7 millj­ón­ir íbúa og heild­ar­landsvæði nær fjórðungi minna en höfuðborg­ar­svæðið á stærð hef­ur klifrað hratt upp ýmsa alþjóðlega lista um sam­keppn­is­hæfni og tækni­væðingu á nýliðnum árum. Landið sit­ur nú í átt­unda sæti á lista Alþjóðahug­verk­stof­unn­ar (WIPO) um helstu ný­sköp­un­ar­ríki heims, þriðja sæti í sam­keppn­is­hæfni skv. „Global Com­pe­titi­ve“-vísi­tölu IMD og fyrsta sæti á lista IMD yfir tæknium­hverfi. Þá eru tveir há­skól­ar í Singa­púr á meðal 20 bestu há­skóla í heimi.

Í stuttu máli; stjórn­völd settu sér skýr mark­mið, lögðu áherslu á að fylgja þeim eft­ir og það hef­ur skilað sér í bætt­um lífs­kjör­um. Við vit­um að verðmæt­in verða sjaldn­ast til á skrif­borðum rík­is­ins. Verk­efni stjórn­valda er að skapa um­gjörðina og marka skýra stefnu þannig að fólk og fyr­ir­tæki geti gripið keflið og hlaupið í mark. Eitt af því sem við get­um lært af Singa­púr er mik­il­vægi þess að hugsa til framtíðar og setja okk­ur mark­mið til lengri tíma. Ísland er á nær öll­um mæli­kvörðum eitt besta land í heimi til að lifa og starfa í en staðreynd­in er sú að við get­um gert svo mikið bet­ur með þann mannauð sem við búum yfir. Ég hef í starfi mínu í nýju ráðuneyti lagt áherslu á að hug­vitið verði stærsta út­flutn­ings­grein þjóðar­inn­ar. Það mark­mið er ekki úr lausu lofti gripið og ég trúi því að við get­um rennt fleiri og sterk­ari stoðum und­ir hag­kerfi okk­ar með því að virkja hug­vitið og aukið þannig lífs­gæði í land­inu. Til þess þurf­um við í sam­ein­ingu að und­ir­búa okk­ur fyr­ir verk­efni framtíðar­inn­ar, setja okk­ur skýr mark­mið um það hvert við stefn­um og hvernig við ætl­um að kom­ast þangað. Það er verk­efni okk­ar allra.

Pistillinn „Þjóðir sem framkvæma!” birtist í Morgunblaðinu 25. nóvember 2022.