Tveir funda

„Marg­ir eru að velta fyr­ir sér hvort þið séuð að hitt­ast af því að þið eruð á svipuðum aldri og eigið margt sam­eig­in­legt?“

John Key, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Nýja-Sjá­lands, fundaði með Barack Obama, fyrr­ver­andi for­seta Banda­ríkj­anna, árið 2011. Þeir eru báðir karl­menn og fædd­ir með fimm daga milli­bili í byrj­un ág­úst 1961. Báðir hafa þeir mik­inn áhuga á íþrótt­um, sér­stak­lega golfi. Á fundi þeirra fyr­ir ára­tug datt þó eng­um í hug að spyrja hvort þeir væru að hitt­ast þar sem þeir væru á svipuðum aldri og ættu margt sam­eig­in­legt.

Þessi spurn­ing kom þó frá blaðamanni þegar tveir for­sæt­is­ráðherr­ar funduðu í síðustu viku. Sanna Mar­in, for­sæt­is­ráðherra Finn­lands, átti þá fund með Jac­indu Arden, for­sæt­is­ráðherra Nýja-Sjá­lands.

„Við erum að funda vegna þess að við erum báðar for­sæt­is­ráðherr­ar. Ekki vegna þess að við erum ung­ar kon­ur í áhrifa­stöðum,“ svöruðu þær, eðli­lega, á móti.

Spurn­ing­in var ágæt áminn­ing um viðhorfið sem enn er ríkj­andi gagn­vart kon­um. Á meðan karl­ar ræða heims­mynd­ina í stóru sam­hengi gefa sér ein­hverj­ir að kon­urn­ar ræði sam­eig­in­leg áhuga­mál eða annað létt­væg­ara.

Þetta á svo sem ekki bara við um stjórn­mál­in. Það muna ef­laust marg­ir eft­ir því þegar banda­ríski leik­ar­inn Robert Dow­ney Jr. var á blaðamanna­fundi spurður hvort hann hefði lært eitt­hvað af því að leika hlut­verk Tonys Starks í Iron Man-kvik­mynd­un­um. Með hon­um á fund­in­um var Scarlett Johans­son, þekkt leik­kona sem hafði slegið í gegn fyr­ir að leika í Black Widow-kvik­mynd­un­um. Hún var um leið spurð hvernig hún hefði haldið sér í formi til að passa í bún­ing­inn fyr­ir hlut­verk sitt.

Nú er það reynd­ar svo að á fundi for­sæt­is­ráðherra Finn­lands og Nýja-Sjá­lands var fjallað um viðskipta­leg tæki­færi þjóðanna, auk þess sem rætt var um jafn­rétti og mik­il­vægi þess að kon­ur hefðu sömu tæki­færi og karl­menn óháð því hvar þær byggju. Það er yf­ir­leitt á þess­um nót­um sem fund­ir tveggja þjóðarleiðtoga fara fram.

Þegar tvær kon­ur, sem gegna hlut­verki þjóðarleiðtoga, funda er það ekki vegna þess að þær eru báðar kon­ur. Ald­ur og áhuga­mál hafa ekk­ert með slíka fundi að gera, ekki frek­ar en þegar kon­ur stunda viðskipti, skara fram úr í íþrótt­um, á sviði lista og menn­ing­ar, leiða fyr­ir­tæki og þannig mætti áfram telja.

Spurn­ing­arn­ar sem hér voru nefnd­ar sem dæmi varpa ljósi á gam­aldags viðhorf í garð kvenna. Það viðhorf er vissu­lega að breyt­ast en það þarf engu að síður að taka mark­viss skref til að breyta þeim hraðar.

Pistillinn „Tveir funda” birtist í Morgunblaðinu 5. desember 2022.