„Margir eru að velta fyrir sér hvort þið séuð að hittast af því að þið eruð á svipuðum aldri og eigið margt sameiginlegt?“
John Key, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands, fundaði með Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, árið 2011. Þeir eru báðir karlmenn og fæddir með fimm daga millibili í byrjun ágúst 1961. Báðir hafa þeir mikinn áhuga á íþróttum, sérstaklega golfi. Á fundi þeirra fyrir áratug datt þó engum í hug að spyrja hvort þeir væru að hittast þar sem þeir væru á svipuðum aldri og ættu margt sameiginlegt.
Þessi spurning kom þó frá blaðamanni þegar tveir forsætisráðherrar funduðu í síðustu viku. Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, átti þá fund með Jacindu Arden, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
„Við erum að funda vegna þess að við erum báðar forsætisráðherrar. Ekki vegna þess að við erum ungar konur í áhrifastöðum,“ svöruðu þær, eðlilega, á móti.
Spurningin var ágæt áminning um viðhorfið sem enn er ríkjandi gagnvart konum. Á meðan karlar ræða heimsmyndina í stóru samhengi gefa sér einhverjir að konurnar ræði sameiginleg áhugamál eða annað léttvægara.
Þetta á svo sem ekki bara við um stjórnmálin. Það muna eflaust margir eftir því þegar bandaríski leikarinn Robert Downey Jr. var á blaðamannafundi spurður hvort hann hefði lært eitthvað af því að leika hlutverk Tonys Starks í Iron Man-kvikmyndunum. Með honum á fundinum var Scarlett Johansson, þekkt leikkona sem hafði slegið í gegn fyrir að leika í Black Widow-kvikmyndunum. Hún var um leið spurð hvernig hún hefði haldið sér í formi til að passa í búninginn fyrir hlutverk sitt.
Nú er það reyndar svo að á fundi forsætisráðherra Finnlands og Nýja-Sjálands var fjallað um viðskiptaleg tækifæri þjóðanna, auk þess sem rætt var um jafnrétti og mikilvægi þess að konur hefðu sömu tækifæri og karlmenn óháð því hvar þær byggju. Það er yfirleitt á þessum nótum sem fundir tveggja þjóðarleiðtoga fara fram.
Þegar tvær konur, sem gegna hlutverki þjóðarleiðtoga, funda er það ekki vegna þess að þær eru báðar konur. Aldur og áhugamál hafa ekkert með slíka fundi að gera, ekki frekar en þegar konur stunda viðskipti, skara fram úr í íþróttum, á sviði lista og menningar, leiða fyrirtæki og þannig mætti áfram telja.
Spurningarnar sem hér voru nefndar sem dæmi varpa ljósi á gamaldags viðhorf í garð kvenna. Það viðhorf er vissulega að breytast en það þarf engu að síður að taka markviss skref til að breyta þeim hraðar.
Pistillinn „Tveir funda” birtist í Morgunblaðinu 5. desember 2022.