Við erum enn að átta okkur á því hvert hið raunverulega hlutverk ríkisvaldsins á að vera – og um leið hvaða hlutverki ríkisvaldið á ekki að gegna. Síðustu 200 ár eða svo hafa verið eitt mesta hagsældarskeið mannkynssögunnar, sem í stuttu máli skýrist af aukinni tæknivæðingu og auknum alþjóðaviðskiptum. Það mætti með ákveðnum rökum segja að ríkisvaldið hafi stækkað samhliða aukinni hagsæld og vegna hennar, en ekki öfugt.
Það er einmitt það sem stór hluti stjórnmálaumræðunnar snýst um, hvert hlutverki ríkisins eigi að vera. Flest erum við sammála um að ríkisvaldinu beri að tryggja öryggi borgaranna. Það einskorðast ekki lengur við her, lögreglu og almannavarnir heldur horfum við nú einnig til fjarskipta, samgangna, loftslagsmála, fjármálastöðugleika og svo framvegis. Í því hagsældarsamfélagi sem við búum í ríkir almenn sátt um að hið opinbera tryggi landsmönnum heilbrigði og menntun, þó að hægt sé að hafa ólíkar skoðanir á því hver veiti þá þjónustu sem hið opinbera vill tryggja fólki.
Það þótti á sínum tíma eðlilegt að ríkið ætti og ræki hér fjölmiðil, póst- og símafyrirtæki, áfengisverslun, banka og fleiri fyrirtæki sem veita það sem kalla má almannaþjónustu. Það má öllum vera ljóst að nú þegar við erum að hefja þriðja áratug 21. aldar er engin þörf á því að ríkisfyrirtæki veiti þessa þjónustu enda gera einkafyrirtæki það nú þegar og að flestu leyti betur en ríkisfyrirtækin gera. Hér gefst ekki pláss til að rekja það nánar, en lesendur geta, eftir að hafa lesið þennan pistil, pantað sér áfengi á netinu, nýtt sér óteljandi fjölmiðla hvort sem er íslenska eða erlenda, greitt fyrir vöru og þjónustu eða tekið lán í gegnum símann með fjölbreyttum hætti og þannig mætti lengi áfram telja.
Það er ekki hlutverk ríkisins að reka fyrirtæki í samkeppni við einkaaðila. Ef við tökum dæmi af fjármála- og fjarskiptafyrirtækjum, þá hefur orðið gífurleg þróun á þeim mörkuðum á liðnum árum og sú þróun mun halda áfram. Það er og verður ólíklegt að ríkisrekin fyrirtæki leiði þá þróun og við vitum satt best að segja ekki hvernig þessir markaðir munu líta út eftir örfá ár. Það eina sem við vitum er að væntanlega verður þjónustan betri og einfaldari en hún er í dag.
Ríkinu ber fyrst og fremst að tryggja almennar leikreglur og hóflega skattheimtu þannig að einkafyrirtæki geti starfað, vaxið og þjónustað sína viðskiptavini í heilbrigðu samkeppnisumhverfi. Daglegar þarfir okkar kalla á að við getum átt örugg samskipti, greitt fyrir vöru og þjónustu, að við komumst leiðar okkar og þannig má áfram telja. Samfélagið gengur þegar ríkið tryggir öryggi og býr til rammann sem einkaaðilar geta starfað innan. Ríkið þarf samt ekki að mála myndina í rammanum.
Pistillinn „Ríkisramminn” birtist í Morgunblaðinu 17. desember 2022.