Hátíð, heilsa og hamingja

Ég sótti, fyrir rúmum áratug, stutt nám erlendis. Það er ekki í frásögur færandi nema ég man hvað mér fannst gott að geta átt í reglulegum samskiptum við mína nánustu, svo sem foreldra og vini, þar sem tæknin bauð upp á það. Þau sem eldri eru og hafa dvalið erlendis leyfðu sér ekki oft þann munað að hringja heim og ekki fóru samskiptin fram í gegnum samskiptamiðla eins og í dag.

Það er engin tilviljun að samskipti okkar hefjast oft á orðunum „gott að sjá þig“ og enda á því að vonandi sjáumst við fljótt aftur. Félagsleg samskipti eru okkur mikilvæg og hafa áhrif á líðan okkar og velferð. Góð félagsleg samskipti skipta máli á öllum aldursskeiðum, auka hæfileika fólks til að miðla upplýsingum, læra af öðrum, leita tækifæra og næra sálina.

Rannsókn Harvard-háskóla sem spannar áttatíu ár sýnir fram á að hamingja fólks er meiri þar sem samfélagið styður og ýtir undir félagsleg samskipti. Það er ekki síður mikilvægt að við ræktum félagsleg tengsl okkar og eigum samskipti við fólk rétt eins og við sinnum líkamlegri heilsu. Að heimsækja ömmu eða fá sér kaffibolla með vinkonu er ekki síður mikilvægt en að hreyfa sig. Góð félagsleg tengsl bæta heilsu okkar og auka vellíðan.

Einmanaleiki fólks er þó ein stærsta áskorun stórborga víða um heim. Það verður æ algengara að fólk búi eitt og nú er svo komið að einmanaleiki og félagsleg einangrun er orðið ein alvarlegasta heilbrigðisvá samtímans, þvert á kynslóðir. Heimurinn hefur breyst hratt og við þurfum sífellt að finna nýjar leiðir og lausnir við verkefnum samtímans. Víða um heiminn nýta þjóðir sér nýsköpun og stafrænar lausnir til að efla félagsleg tengsl fólks. Bretar eru í þeim hópi en þeir hafa tekið þessa þróun alvarlega og stjórnvöld hafa sett málefnið á oddinn með stefnu gegn einmanaleika.

Það er mikilvægt að við hugum að vellíðan íslensku þjóðarinnar. Á Íslandi hefur þeim sem finna fyrir einmanaleika fjölgað verulega á síðustu árum. Það er varhugaverð þróun og þrátt fyrir að við séum tengd allan sólarhringinn uppfylla samfélagsmiðlar ekki þörf okkar mannfólksins fyrir félagsleg samskipti og tengsl.

Félagsleg samskipti okkar eru gjarnan meiri um hátíðarnar. Við hlúum að þeim sem standa okkur næst og reynum að snerta á sem flestum með góðum kveðjum og öðrum samskiptum. Við sem samfélag þurfum að hlúa að þeim sem njóta minni stuðnings frá fjölskyldu og vinum, hafa einangrast eða þurfa almennt meiri stuðning. Við þurfum að halda betur hvert utan um annað, ekki aðeins yfir hátíðarnar eða þegar veður er vont heldur alla daga ársins. Þannig sköpum við öflugra og betra samfélag fyrir okkur öll.

Gleðilega hátíð.

Pistillinn „Hátíð, heilsa og hamingja” birtist í Morgunblaðinu 23. desember 2022.