Framfarir í háskólastarfi

Í samtali mínu við fólk allt frá Snæfellsbæ til Ísafjarðar, frá Akureyri til Seyðisfjarðar, frá Höfn til Vestmannaeyja er kallað eftir auknu aðgengi að háskólanámi á landsbyggðinni, meira framboði af fjarnámi. Ungt fólk sem vill búa í heimabyggð og foreldrar sem horfa á eftir börnum sínum til Reykjavíkur til að sækja staðnám.

Í samtali mínu við fólk í stórum fyrirtækjum og smáum, nýjum og eldri er kallað eftir menntuðum einstaklingum í vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði. Það er einnig kallað eftir fleiri heilbrigðismenntuðum, betri íslenskukennslu og fleiri leikskólakennurum. Áskoranir í sjálfbærni og loftslagsmálum blasa við okkur og á sama tíma tækifæri í nýjum lausnum og innlendri matvælaframleiðslu.

Háskólarnir eru lykillinn að því að við náum árangri og höfum getu til þess að byggja upp það þekkingarsamfélag sem við þurfum til að Ísland verði samkeppnishæft. Það liggja fyrir okkur mörg tækifæri til að efla háskólanám og um leið samfélagið í heild sinni og svara kalli þessa fólks. Þau tækifæri ætlum við að nýta.

Ég trúi því einlæglega að við getum boðið upp á háskólamenntun á heimsmælikvarða ef háskólarnir taka í auknari mæli höndum saman. Það sjáum við mjög skýrt með þeim fjölda verkefna sem hafa mörg verið í gerjun um árabil og verða nú að veruleika.

Í gær kynnti ég úthlutanir úr Samstarfi háskóla, verkefni sem ég setti á laggirnar í haust til að ýta undir aukin gæði, meira samstarf og hagkvæmni í íslensku skólastarfi. Það er þegar fjármagnað og var 25 verkefnum boðið til samninga um stuðning fyrir um 1,2 milljarða króna.

Þar er brugðist við ákalli samfélagsins og fjölmörgum áskorunum. Sautján verkefni snúa að auknu fjarnámi m.a. tæknifræðinám á Norðurlandi og heilsugæsluhjúkrun. Brugðist er við mönnunarvandanum víða, í heilbrigðismálum, á leikskólum, í fiskeldi, netöryggi og hugverkaiðnaði. Stóraukið og fjölbreytt íslenskunám er okkur mikilvægt. Samhliða er sett á fót einstakt samstarf allra háskólanna um sameiginlegt meistaranám sem gefur stúdentum fjölbreyttari tækifæri og stuðlar að auknum gæðum og meiri hagkvæmni. Hér eru aðeins nefnd nokkur verkefni en þau hafa öll burði til þess að hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag um leið og þau efla íslenska háskóla.

Við eigum mikinn mannauð í íslenskum háskólum og þeir eru samfélagi okkar mikilvægir. Verkefnin geta haft mikla þýðingu fyrir Ísland og skapa ný og spennandi tækifæri fyrir fólk um land allt. Gæði verkefnanna eru mikil, þau eru raunhæf og gefa okkur góða mynd af því hversu metnaðarfullt og gott starf er unnið í háskólunum á Íslandi.

Með Samstarfi háskóla er verið að auka gæði háskólanáms og forgangsraða fjármunum til að koma til móts við aðkallandi verkefni í þágu samfélagsins.

Pistillinn „Framfarir í háskólastarfi” birtist í Morgunblaðinu 13. janúar 2023.