Hann er „drop out“ úr skóla, fór í eigin bissness og græddi fullt af peningum! Samfélagsmiðlar eru stútfullir af slíkum sögum. Sögum um unga karlmenn sem fóru ekki í háskóla heldur nýttu tímann, fóru strax út í eigin rekstur, stofnuðu fyrirtæki og verja nú tíma sínum í að telja peninga. Slík skilaboð á samfélagsmiðlum eiga hvorki alltaf stoð í raunveruleikanum né gefa rétta mynd af tækifærum samtímans. Þessi skilaboð eru mun nær ungu fólki sem stendur á þeim tímamótum að taka ákvörðun um framtíð sína og vega oft þyngra en góð ráð frá miðaldra frændfólki eða spár Samtaka atvinnulífsins um færniþörf á vinnumarkaði.
Samspil menntunar og árangurs verður þó ekki rofið. Það eru skilaboðin sem strákarnir okkar þurfa að heyra. Ef vaxtartækifæri atvinnugreina á Íslandi eiga að ná fram að ganga vantar þúsundir sérfræðinga á næstu árum. Í nýjum atvinnugreinum, stórtækum áformum tækni- og hugverkaiðnaðarins, eru spennandi atvinnutækifæri fyrir fólk með góða menntun.
Ísland er eftirbátur annarra OECD-landa hvað viðkemur fjölda ungs fólks sem lokið hefur háskólanámi. Hér á landi skýrist munurinn eingöngu af lágu hlutfalli ungra karlmanna sem lokið hafa háskólanámi. Að meðaltali hafa 42% ungra karlmanna lokið háskólanámi í OECD-löndum en á Íslandi er þetta hlutfall aðeins 34%. Hlutfall ungra kvenna er það sama á Íslandi og að meðaltali innan OECD og því ljóst að munurinn felst einungis í vali ungra karlmanna.
Þegar kemur að námsframvindu ungs fólks verðum við að horfa á heildarmyndina og byrja að líta til stöðu drengja frá grunnskólaaldri. Staðan er t.d. sú að brotthvarf stráka úr framhaldsskólum á Íslandi hefur aukist hratt. Árið 2016 var brotthvarf nokkuð jafnt: fyrir hverja stelpu sem hætti gerði rúmlega einn strákur það líka. Í dag, sjö árum síðar, hætta tveir strákar fyrir hverja stelpu í framhaldsskóla. Hvergi í Evrópu er staðan verri þegar litið er til fjölda stráka sem eru ekki í neinu námi.
Við heyrum stundum sagt að atvinnulífið þurfi ekki fleiri viðskiptafræðinga og lögfræðinga. Það er að hluta til rétt. Vandinn liggur þó ekki í því að of margir strákar séu ekki að læra þessi fög – heldur eru of margir ekki að mennta sig yfirhöfuð. Það er hlutverk okkar allra að ráða á því bót.
Það eru fjölbreyttar leiðir í boði og vinnumarkaður framtíðarinnar mun taka vel á móti vel menntuðu fólki. Við þurfum þó strax að fara í stórt átak til að tryggja að strákarnir okkar sjái sér hag í að sækja sér menntun. Það verkefni er ekki bara til að tryggja að hagvöxtur og lífskjör verði áfram í fremstu röð hér á landi, heldur er það félagslegt mál að tryggja virkni þeirra og tækifæri.
Pistillinn „Hvar eru strákarnir okkar?” birtist í Morgunblaðinu 20. mars 2023.