Hvar eru strákarnir okkar?

Hann er „drop out“ úr skóla, fór í eig­in biss­ness og græddi fullt af pen­ing­um! Sam­fé­lags­miðlar eru stút­full­ir af slík­um sög­um. Sög­um um unga karl­menn sem fóru ekki í há­skóla held­ur nýttu tím­ann, fóru strax út í eig­in rekst­ur, stofnuðu fyr­ir­tæki og verja nú tíma sín­um í að telja pen­inga. Slík skila­boð á sam­fé­lags­miðlum eiga hvorki alltaf stoð í raun­veru­leik­an­um né gefa rétta mynd af tæki­fær­um sam­tím­ans. Þessi skila­boð eru mun nær ungu fólki sem stend­ur á þeim tíma­mót­um að taka ákvörðun um framtíð sína og vega oft þyngra en góð ráð frá miðaldra frænd­fólki eða spár Sam­taka at­vinnu­lífs­ins um færniþörf á vinnu­markaði.

Sam­spil mennt­un­ar og ár­ang­urs verður þó ekki rofið. Það eru skila­boðin sem strák­arn­ir okk­ar þurfa að heyra. Ef vaxt­ar­tæki­færi at­vinnu­greina á Íslandi eiga að ná fram að ganga vant­ar þúsund­ir sér­fræðinga á næstu árum. Í nýj­um at­vinnu­grein­um, stór­tæk­um áform­um tækni- og hug­verkaiðnaðar­ins, eru spenn­andi at­vinnu­tæki­færi fyr­ir fólk með góða mennt­un.

Ísland er eft­ir­bát­ur annarra OECD-landa hvað viðkem­ur fjölda ungs fólks sem lokið hef­ur há­skóla­námi. Hér á landi skýrist mun­ur­inn ein­göngu af lágu hlut­falli ungra karl­manna sem lokið hafa há­skóla­námi. Að meðaltali hafa 42% ungra karl­manna lokið há­skóla­námi í OECD-lönd­um en á Íslandi er þetta hlut­fall aðeins 34%. Hlut­fall ungra kvenna er það sama á Íslandi og að meðaltali inn­an OECD og því ljóst að mun­ur­inn felst ein­ung­is í vali ungra karl­manna.

Þegar kem­ur að náms­fram­vindu ungs fólks verðum við að horfa á heild­ar­mynd­ina og byrja að líta til stöðu drengja frá grunn­skóla­aldri. Staðan er t.d. sú að brott­hvarf stráka úr fram­halds­skól­um á Íslandi hef­ur auk­ist hratt. Árið 2016 var brott­hvarf nokkuð jafnt: fyr­ir hverja stelpu sem hætti gerði rúm­lega einn strák­ur það líka. Í dag, sjö árum síðar, hætta tveir strák­ar fyr­ir hverja stelpu í fram­halds­skóla. Hvergi í Evr­ópu er staðan verri þegar litið er til fjölda stráka sem eru ekki í neinu námi.

Við heyr­um stund­um sagt að at­vinnu­lífið þurfi ekki fleiri viðskipta­fræðinga og lög­fræðinga. Það er að hluta til rétt. Vand­inn ligg­ur þó ekki í því að of marg­ir strák­ar séu ekki að læra þessi fög – held­ur eru of marg­ir ekki að mennta sig yf­ir­höfuð. Það er hlut­verk okk­ar allra að ráða á því bót.

Það eru fjöl­breytt­ar leiðir í boði og vinnu­markaður framtíðar­inn­ar mun taka vel á móti vel menntuðu fólki. Við þurf­um þó strax að fara í stórt átak til að tryggja að strák­arn­ir okk­ar sjái sér hag í að sækja sér mennt­un. Það verk­efni er ekki bara til að tryggja að hag­vöxt­ur og lífs­kjör verði áfram í fremstu röð hér á landi, held­ur er það fé­lags­legt mál að tryggja virkni þeirra og tæki­færi.

Pistillinn „Hvar eru strákarnir okkar?” birtist í Morgunblaðinu 20. mars 2023.