Frumskógur frumkvöðlafyrirtækja

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Sidekick Health fékk fimmtíu milljóna stuðning úr Tækniþróunarsjóði fyrir örfáum árum. Sá stuðningur var mikilvægur á þeim tíma. Félagið er nú verðmetið á um fjörutíu milljarða króna, hefur ráðið til sín starfsfólk og mun hafa mikil áhrif á íslenskt hagkerfi til lengri tíma. Sambærilega sögu má segja af öðrum félögum á borð við Controlant, Kerecis og fleiri.

Umhverfi rannsókna og nýsköpunar hefur styrkst verulega á síðustu árum. Stuðningur ríkisins er víðtækur og á síðasta ári fóru rúmlega átta milljarðar króna í gegnum stuðningskerfi opinberra samkeppnissjóða. Þá hafa einkaaðilar á undanförnum árum sett umtalsvert fjármagn í þessi mikilvægu verkefni.

Hvað stuðning ríkisins varðar þá skiptir það máli að stuðningskerfið sé gott svo að nýjar hugmyndir einstaklinga verði að veruleika og skapi bæði störf og verðmæti fyrir íslenskt samfélag. Í þessu, eins og öðru sem snýr að opinberum rekstri og útgjöldum, þarf að huga að því hvernig hægt sé að fara betur með fjármagn hins opinbera, auka hagræðingu og skilvirkni og tryggja að fjármunum sé vel varið.

Það er þess vegna sem ég hef ráðist í úttekt og kortlagningu á opinberu sjóðaumhverfi. Í dag eru um 80 opinberir sjóðir sem styðja við rannsóknir, nýsköpun, þróun og menningu hér á landi. Af 55 sjóðum á sviðum rannsókna, þróunar og nýsköpunar eru a.m.k. 40 með sérstakar stjórnir. Samtals teljast 136 stjórnarmenn í þeim 40 sjóðum sem upplýsingar fundust um. Aðgengi að upplýsingum um sjóðina er misgott. Um helmingur sjóðanna er í umsýslu Rannís og þar má á heimasíðu nálgast upplýsingar um starfsemi þeirra og umfang. Aðrir sjóðir eru með eigin heimasíðu eða undirsíðu hjá ráðuneytum og í einhverjum tilvikum eru upplýsingar einungis aðgengilegar þegar auglýst er eftir umsóknum. Umsóknarkerfin eru líka mörg og mismunandi, allt frá umsóknum á pappírsformi yfir í rafræn umsóknarform.

Af þeim rúmu átta milljörðum sem fara til úthlutunar á hverju ári má gera ráð fyrir að allt 5-10% af fjárframlögum sjóðanna fari í umsýslukostnað. Það má því ætla að allt að 800 milljónir króna fari í umsýslukostnað á hverju ári en þá er ómældur sá kostnaður sem atvinnulífið, gjarnan frumkvöðlar, ver í vinnu og ráðgjöf við umsóknir sem oft á tíðum eru torveldar og flóknar.

Það er mikilvægt að ráða þessu bót og ég mun leggja það til að opinberum sjóðum verði fækkað verulega, þeir sameinaðir, skilvirkni þeirra aukin, að vinnubrögð og skipulag verði samhæft og að árangur þeirra sé mældur. Það mun ekki bara spara opinbert fjármagn, heldur liðka til og einfalda ferlið fyrir frumkvöðlafyrirtæki sem gegna mikilvægu hlutverki í hagkerfinu. Í þessu eins og mörgu öðru getum við farið betur með fjármuni.

Greinin „Frumskógur frumkvöðlafyrirtækja” birtist í Morgunblaðinu 29. mars 2023.

Styrkja framboðið

Það er hægt að styrkja framboðið með því að leggja inn á reikning þess.


Þeir sem styrkja framboðið fá í staðinn gjöf með merki framboðsins á meðan birgðir endast.

Hægt er að styrkja framboði beint með því leggja inná bankareikning framboðsins:  

Kennitala: 620616-0870

Reikningsnúmer: 0133-26-011882

Frambjóðandi má ekki taka við hærri styrkjum frá einstaka fyrirtæki eða lögaðila en sem nemur 400.000 kr. á ári. Birta ber nöfn allra fyrirtækja/lögaðila sem styrkja kosningabaráttu frambjóðandans.

Frambjóðandi má ekki taka við hærri styrkjum frá einstaklingum en sem nemur 400.000 kr. á ári. Birta skal nöfn einstaklinga sem veitt hafa styrki sem metnir eru á meira en 300.000 kr. til kosningabaráttunnar.