Töluverð umræða hefur átt sér stað um stöðu íslenskra háskóla. Þeir sem hafa tekið þátt í þeirri umræðu virðast – sem betur fer – sammála um að við getum gert betur og að íslenskir skólar eigi að vera í fremstu röð. Í kjölfar efnahagshruns voru fjárveitingar til háskóla skornar niður og vísbendingar eru um að þróunin sé farin að bitna á gæðum náms. Við það verður ekki unað enda eru alþjóðlega samkeppnishæfir háskólar lykilinn að auknum hagvexti og bættum lífskjörum. Af þeirri ástæðu boðar fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar nýja sókn fyrir háskólastigið. Hún felur í sér sex milljarða króna aukningu til háskólastigsins til næstu sex ára. Strax á næsta ári er aukningin um þrír og hálfur milljarður króna.
Í þessu samhengi þarf líka að huga að markmiðinu. Við viljum efla háskólana af því að við ætlum að auka verðmætasköpun og fjölga tækifærum. Öflugt atvinnulíf kallar á fleiri háskólamenntaða einstaklinga með fjölbreytta menntun. Það vantar t.d. um níu þúsund sérfræðinga hér á landi á næstu árum, bara í hugverkaiðnaði, ef áætlanir fyrirtækjanna eiga að ganga eftir. Auk þess er fjölgun háskólanema forsenda þess að við getum mannað velferðarþjónustuna með þeim hætti að sómi sé að, enda kallar heilbrigðiskerfið nú þegar eftir fleira háskólamenntuðu fólki.
Það er mikilvægt að auknar fjárveitingar fari í að auka gæði háskólanáms og rannsókna og til nýrra verkefna en ekki í óbreytta starfsemi. Nýtt reiknilíkan háskóla mun í auknum mæli leggja áherslu á gæði háskólanáms. Líkaninu er ætlað að auka gagnsæi, efla rannsóknir og bæta fjármögnun náms frá núverandi líkani.
Sumir vilja halda því fram að háskólar eigi ekki að eltast við þarfir atvinnulífsins og að mikilvægt sé að huga áfram vel að félagsvísindagreinum. Eitt þarf þó ekki að útiloka annað. Það gefur augaleið að háskólar geta ekki eingöngu útskrifað fólk til starfa hjá hinu opinbera og auðvitað ekki heldur bara fólk sem mun starfa hjá einkaaðilum. Það er misskilningur að halda að þetta snúist um að velja annað hvort. Ég hef lagt áherslu á að skólarnir hafi burði til að bjóða upp á fjölbreytt nám sem mun ýta undir frekari vöxt og aukin lífsgæði hér á landi.
Ég trúi því að lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum sé að hugvitið, hin ótakmarkaða auðlind, verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Í því felst að við getum vaxið út úr sveiflukenndu efnahagsástandi. Forsenda slíks vaxtar eru breyttar og nýjar áherslur í menntakerfinu. Með þeim kröftum getum við skapað ný störf og ný tækifæri – aukið vöxt og verðmætasköpun íslensks atvinnulífs og bætt lífsgæði þjóðarinnar til lengri tíma.
Pistillinn „Sókn í þágu háskóla og samfélags” birtist í Morgunblaðinu 19. apríl 2023.