Einn af veigamestu þáttunum í öryggis- og varnarmálum þjóðarinnar snýr að öryggi fjarskipta og fjarskiptainnviða. Þar á meðal eru netöryggismálin sem verða sífellt fyrirferðarmeiri í umræðunni, ekki síst nú eftir innrás Rússa í Úkraínu. Talið er að rússneskir kafbátar hafi kortlagt sæstrengina sem tengja Ísland við umheiminn og áhyggjur fara vaxandi um það hvað gerist ef landið verður skyndilega sambandslaust við umheiminn.
Á sama tíma heyrast fréttir frá Bandaríkjunum um að stjórnvöld hyggist banna samfélagsmiðilinn TikTok selji kínverska fyrirtækið ByteDynce ekki hlut sinn. Ástæðan er sú að hætta er talin vera á því að persónuupplýsingar um notendur gætu verið afhentar yfirvöldum í Kína. Algóriþmi TikTok er ekki eins á milli landa. Í Kína er meira um það að efni með menntagildi sé haldið að börnum og þau geta einungis verið 40 mínútur á dag á TikTok. Í Bandaríkjunum er miðillinn hins vegar hannaður til að gera börn háð efni hans, spilað er með dópamínvirkni og engar takmarkanir eru á notkuninni. Þegar bandarísk börn eru spurð hvað þau ætli að verða þegar þau verða stór þá er svarið „samfélagsmiðlastjarna“ en kínversku börnin ætla að verða geimfarar.
Samhliða sjáum við gervigreindina koma sterka til leiks og nefnd hafa verið dæmi um að nemendur hafi misnotað hana við skil á verkefnum í háskólum. Gervigreindin felur vissulega í sér áskoranir og hættur en um leið búa í henni margvísleg tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki. Þekking gervigreindarinnar mun halda áfram að þróast á ógnarhraða. Þegar ógn sem þessi steðjar að hafa stjórnvöld um tvennt að velja; banna eða takmarka tæknina eða nýta hana í þágu betra samfélags. Við getum hlaupið í felur vegna þess að „Rússarnir eru að koma“ eða fundið leiðir til að nýta tæknina til að styrkja stöðu okkar í tæknivæddu alþjóðlegu samfélagi. Seinni leiðin er sú eina færa. Við getum ekki annað en nýtt tæknina og gert hana að bandamanni frekar en andstæðingi, t.d. með því að börn læri að umgangast samfélagsmiðla og læri að nota gervigreindina með gagnrýnum hætti. Við getum einnig nýtt tæknina til að skapa aukið öryggi. Fari svo að fjarskiptasæstrengir sem liggja til Íslands verði fyrir skaða, hvort sem er viljandi eða óviljandi, er til búnaður sem getur tryggt fjarskiptasamband okkar til skemmri tíma. Um er að ræða öfluga gervihnetti sem hafa burði til að vera nokkurs konar vara-netsamband okkar við útlönd, og um leið hér innanlands komi til þess að samband um sæstrengi rofni. Þetta er áhugaverður kostur sem skoða þarf frekar og ég mun beita mér fyrir því að gera slíkar ráðstafanir til að tryggja fjarskiptaöryggi Íslands.
Sem ráðherra þeirra málaflokka sem snúa að þróun tölvutækni og fjarskiptaöryggis legg ég ríka áherslu á að styðja sem best við framgang þeirra sem einna af mikilvægustu stoðunum til að auka samkeppnishæfni og velsæld þjóðarinnar til framtíðar – og tryggja um leið öryggi í víðum skilningi.
Greinin „Rússarnir koma” birtist í á Morgunblaðinu 28. apríl 2023.