Rússarnir koma

Einn af veiga­mestu þátt­un­um í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um þjóðar­inn­ar snýr að ör­yggi fjar­skipta og fjar­skiptainnviða. Þar á meðal eru netör­ygg­is­mál­in sem verða sí­fellt fyr­ir­ferðarmeiri í umræðunni, ekki síst nú eft­ir inn­rás Rússa í Úkraínu. Talið er að rúss­nesk­ir kaf­bát­ar hafi kort­lagt sæ­streng­ina sem tengja Ísland við um­heim­inn og áhyggj­ur fara vax­andi um það hvað ger­ist ef landið verður skyndi­lega sam­bands­laust við um­heim­inn.

Á sama tíma heyr­ast frétt­ir frá Banda­ríkj­un­um um að stjórn­völd hygg­ist banna sam­fé­lags­miðil­inn TikT­ok selji kín­verska fyr­ir­tækið Byte­Dynce ekki hlut sinn. Ástæðan er sú að hætta er tal­in vera á því að per­sónu­upp­lýs­ing­ar um not­end­ur gætu verið af­hent­ar yf­ir­völd­um í Kína. Al­góriþmi TikT­ok er ekki eins á milli landa. Í Kína er meira um það að efni með mennta­gildi sé haldið að börn­um og þau geta ein­ung­is verið 40 mín­út­ur á dag á TikT­ok. Í Banda­ríkj­un­um er miðill­inn hins veg­ar hannaður til að gera börn háð efni hans, spilað er með dópa­mín­virkni og eng­ar tak­mark­an­ir eru á notk­un­inni. Þegar banda­rísk börn eru spurð hvað þau ætli að verða þegar þau verða stór þá er svarið „sam­fé­lags­miðlastjarna“ en kín­versku börn­in ætla að verða geim­far­ar.

Sam­hliða sjá­um við gervi­greind­ina koma sterka til leiks og nefnd hafa verið dæmi um að nem­end­ur hafi mis­notað hana við skil á verk­efn­um í há­skól­um. Gervi­greind­in fel­ur vissu­lega í sér áskor­an­ir og hætt­ur en um leið búa í henni marg­vís­leg tæki­færi fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki. Þekk­ing gervi­greind­ar­inn­ar mun halda áfram að þró­ast á ógn­ar­hraða. Þegar ógn sem þessi steðjar að hafa stjórn­völd um tvennt að velja; banna eða tak­marka tækn­ina eða nýta hana í þágu betra sam­fé­lags. Við get­um hlaupið í fel­ur vegna þess að „Rúss­arn­ir eru að koma“ eða fundið leiðir til að nýta tækn­ina til að styrkja stöðu okk­ar í tækni­væddu alþjóðlegu sam­fé­lagi. Seinni leiðin er sú eina færa. Við get­um ekki annað en nýtt tækn­ina og gert hana að banda­manni frek­ar en and­stæðingi, t.d. með því að börn læri að um­gang­ast sam­fé­lags­miðla og læri að nota gervi­greind­ina með gagn­rýn­um hætti. Við get­um einnig nýtt tækn­ina til að skapa aukið ör­yggi. Fari svo að fjar­skiptasæ­streng­ir sem liggja til Íslands verði fyr­ir skaða, hvort sem er vilj­andi eða óvilj­andi, er til búnaður sem get­ur tryggt fjar­skipta­sam­band okk­ar til skemmri tíma. Um er að ræða öfl­uga gervi­hnetti sem hafa burði til að vera nokk­urs kon­ar vara-net­sam­band okk­ar við út­lönd, og um leið hér inn­an­lands komi til þess að sam­band um sæ­strengi rofni. Þetta er áhuga­verður kost­ur sem skoða þarf frek­ar og ég mun beita mér fyr­ir því að gera slík­ar ráðstaf­an­ir til að tryggja fjar­skipta­ör­yggi Íslands.

Sem ráðherra þeirra mála­flokka sem snúa að þróun tölvu­tækni og fjar­skipta­ör­ygg­is legg ég ríka áherslu á að styðja sem best við fram­gang þeirra sem einna af mik­il­væg­ustu stoðunum til að auka sam­keppn­is­hæfni og vel­sæld þjóðar­inn­ar til framtíðar – og tryggja um leið ör­yggi í víðum skiln­ingi.

Greinin „Rússarnir koma” birtist í á Morgunblaðinu 28. apríl 2023.