Ríkið getur sparað fjármagn

Íslenska heilbrigðiskerfið er umfangs- og kostnaðarmesti hluti í rekstri hins opinbera. Með hækkandi lífaldri þjóðarinnar og öðrum áskorunum samtímans heldur þessi kostnaður áfram að hækka. Í raun hækkar hann það mikið að það verður erfitt fyrir ríkið að standa undir slíkri aukningu.

Þessari þróun breytum við ekki nema við nýtum hugvitið, tækni og nýsköpun. Við þurfum að forgangsraða og innleiða tæknilausnir og nýsköpun. Ekki einungis svo að kerfið verði hagkvæmara og viðráðanlegra heldur líka til að bæta þjónustu við sjúklinga og létta á störfum heilbrigðisstarfsmanna. Besti stuðningurinn við nýsköpun er að ríkið nýti hana með raunverulegum hætti og sjái hag sinn í því að greiða fyrir hana.

Til þess að styðja við þessa þróun kynnti ég Fléttuna til leiks. Með Fléttunni gefst heilbrigðisstofnunum um allt land tækifæri til að innleiða og nýta áhugaverðar lausnir til að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og auka hagkvæmni og skilvirkni kerfisins. Af því höfum við öll hag.

Stuðningurinn er háður því skilyrði að nýsköpunarfyrirtækin eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem skuldbinda sig til að innleiða nýsköpun fyrirtækisins. Fléttan er því brú fyrir einkaframtakið inn í heilbrigðiskerfið. Eitt hundrað milljónum króna verður varið í slík verkefni og umsóknarfrestur er til og með 8. júní.

Við þurfum þó ekki aðeins að auka skilvirkni og hagkvæmni í heilbrigðiskerfinu heldur í öllum opinberum rekstri. Og það gerum við best með innleiðingu tækni og nýrra lausna. Það er því mikilvægt að hið opinbera kaupi og nýti nýjar lausnir í sinni starfsemi, lausnir sem eru til þess fallnar að spara fjármagn til lengri tíma.

Þá höfum við einnig sett af stað samstarfssamning við Ríkiskaup sem felur í sér stuðning við verkefni Ríkiskaupa um nýsköpun í opinberum sparnaði. Markmiðið er að draga úr ríkisútgjöldum með því að stuðla að auknum innkaupum á nýsköpun með sérstakri áherslu á lausnir sem skapa sparnað í rekstri hins opinbera.

Við eigum ekki og getum ekki gert hlutina eins og við höfum alltaf gert þá, við verðum að nýta tæknina, nýsköpun og nýjar lausnir einstaklinga og fyrirtækja, ekki bara af því að þær eru betri heldur eru þær líka hagkvæmari.

Ábyrgð okkar stjórnmálamanna er að hugsa hvernig við förum sem best með fjármuni. Þar sem vel er hlúð að nýsköpunarumhverfi spretta upp lausnir sem taka á úrlausnarefnum okkar samtíma, auka hagkvæmni og skilvirkni. Við eigum að hugsa í lausnum, ekki bara vandamálum – og alls ekki í sífelldum auknum útgjöldum.

Pistillinn „Ríkið getur sparað fjármagn” birtist í Morgunblaðinu 6. júní 2023.