Strákarnir okkar í skóla

Það er ástæða fyrir því að ég hef á liðnu ári lagt áherslu á mikilvægi þess að fjölga strákum í háskólanámi. Fyrir það fyrsta mun það gagnast þeim til lengri tíma, opna nýjar dyr fyrir þá og fjölga þeim tækifærum sem þeir hafa til að búa sér gott líf. Í öðru lagi er hér um mikilvægt efnahagsmál að ræða. Það liggur fyrir að við þurfum fleiri sérfræðinga í ólíkum geirum og fólk sem hefur sótt sér fjölbreytta menntun til að auka enn frekar við hagsæld hér á landi og fjölga stoðum í atvinnulífinu.

Þess vegna viljum við hvetja stráka til dáða í stað þess að tala niður stöðu þeirra í samfélaginu, hingað til hefur það ekki skilað okkur neinum árangri. Strákarnir eru ekki vandamálið, heldur kerfið. Það er því okkar verkefni að laga kerfið sem við bjóðum þeim upp á.

Aðsókn stráka í háskólanám hefur verið áhyggjuefni og síðastliðin fjögur ár hafa þeir aðeins verið um þriðjungur nemenda í Háskóla Íslands. Ráðuneyti mitt stóð fyrir átaki nú í vor, samhliða umsóknatímabili í háskóla landsins, undir yfirskriftinni Heimurinn stækkar í háskóla. Markmið átaksins var að hvetja ungt fólk, sérstaklega stráka, til að skrá sig í háskóla og sjá tækifærin sem felast í því að mennta sig til fjölbreyttra starfa í samfélaginu.

Með átakinu vildum við sýna ungu fólki og þá sérstaklega strákum fram á það að háskólinn er ekki bara fyrir þá sem hafa bestu einkunnirnar í framhaldsskóla heldur alla sem hafa áhuga á að skapa sér frekari tækifæri í framtíðinni. Háskólanám þrengir ekki valkosti ungs fólks heldur er um að ræða fjárfestingu sem fjölgar tækifærum til framtíðar.

Árangurinn lét ekki á sér standa. Fyrstu aðsóknartölur í Háskóla Íslands eru langt umfram væntingar en fjölgun er í umsóknum beggja kynja. Umsóknum kvenna hefur fjölgað um 2% og umsóknum karla um heil 13%. Það er ánægjulegt að sjá að umsóknir strákanna dreifast á margar deildir skólans og þeir eru helst að fara í íslensku, heimspeki, iðnaðar- og vélaverkfræði og raunvísinda- og tölvunarfræðideild. Einnig er skemmtilegt að sjá að stelpum fjölgar umfram stráka í rafmagns- og tölvuverkfræði. Niðurstöðurnar úr Háskóla Íslands eru mikilvægar því þar stunda 65% þeirra sem skráðir eru í háskóla á Íslandi nám.

Þessari vitundarvakningu þarf að halda áfram. Háskólasamfélagið á að endurspegla samfélagið og þar getum við gert betur. Til að mynda skila strákar á landsbyggðinni sér verr inn í langskólanám og það þarf að skoða frekar hvernig hægt er að ná betur til þeirra. Jafnframt þurfum við fleira fólk af erlendum uppruna inn í háskólana okkar. Þar liggja gríðarleg tækifæri enda er menntun lykillinn að auknum tækifærum í okkar samfélagi. Átakinu er því engan veginn lokið.

Pistillinn Strákarnir okkar í skóla birtist í Morgunblaðinu 15. júní 2023.