Jafnvægi í útlendingmálum

Í þjóðfélagsumræðu þarf að ræða mál af yfirvegun og sanngirni. Það á sérstaklega við um þann viðkvæma málaflokk sem málefni útlendinga eru. Á sama tíma ber okkur skylda til að horfa á staðreyndir og taka ákvarðanir sem taka mið af heildarhagsmunum þjóðarinnar.

Innviðir eru víða komnir að þolmörkum. Þegar innviðir bresta bitnar það verst á ungu fjölskyldufólki, eldri íbúum og fötluðu fólki. Staðan á húsnæðismarkaði er erfið og það er álag á heilbrigðisþjónustu og á skólakerfinu. Þjónustan líður fyrir og sveitarfélög kvarta yfir því að það sé orðið þungt fyrir þau að sinna mikilvægum hluta af sínum lögbundnu verkefnum.

Aftur á móti þurfum við fleiri Íslendinga. Það er því ekki hægt að setja útlendingamál í heild sinni í sama flokk. Hér býr fjöldinn allur af innflytjendum sem hafa auðgað samfélagið okkar. Það vantar enn fólk í sérhæfð störf og ég hef beitt mér fyrir því að við bjóðum alþjóðlega sérfræðinga velkomna. Að auðveldara verði að koma hingað til að starfa og lifa, fá nám sitt metið að verðleikum eða dvelja hér eftir að hafa lokið námi.

Það var því ánægjulegt þegar miklar breytingar voru gerðar á atvinnu- og dvalarleyfum. Erlendir nemendur geta nú fengið dvalarleyfi að háskólanámi loknu í allt að þrjú ár. Dvalarleyfi vegna starfa sem krefjast sérfræðiþekkingar og skorts á starfsfólki hafa verið lengd. Þá er annað forgangsmál að nýta betur hæfileika þeirra sem eru hér nú þegar, viðurkenna menntun þeirra og gera þeim betur kleift að taka þátt í samfélaginu okkar.

Það er ástæða til að staldra við og taka umræðu um kerfið í kringum þá sem sækja hingað alþjóðlega vernd. Það kerfi er neyðarkerfi og við viljum taka vel á móti fólki sem þarf alþjóðlega vernd, finna því húsnæði, veita góða heilbrigðisþjónustu og tryggja það að vel sé tekið á móti börnunum í skóla. Þau læri íslensku og fjölskyldurnar aðlagist íslensku samfélagi.

Aftur á móti hefur reynst þyngra að ná fram breytingum á kerfinu svo okkur takist að forgangsraða fjármunum og stuðningi við þá sem hér geta fengið alþjóðlega vernd, en fjármunirnir fari ekki í kerfi utan um þá sem munu ekki fá hér vernd.

Á þetta höfum við í Sjálfstæðisflokknum bent í mörg ár og fjórir dómsmálaráðherrar lagt fram breytingar og bent á hvert við stefnum ef ekkert verður að gert. Staðreyndin er sú að fjölgunin sem hér hefur orðið síðustu ár getur ekki haldið áfram í slíkum veldisvexti, við getum ekki tekið á móti margfalt fleira fólki en löndin í kringum okkur.

Ef við hættum að ráða við verkefnið er voðinn vís. Hætta skapast á andúð og að í þessu litla landi skapist togstreita sem við hvorki viljum né ráðum við. Eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnmálanna í dag er að finna leið til að koma í veg fyrir það. Leið sem sýnir að íslenskt samfélag muni finna jafnvægið, að taka áfram vel á móti fólki en ráða við verkefnið á sama tíma.

Pistillinn „Jafnvægi í útlendingmálum” birtist í Morgunblaðinu 24. júní 2023.