Það skiptir máli á grundvelli hvaða hugmyndafræði ákvarðanir eru teknar. Það hefur áhrif á það hvernig samfélag við byggjum upp og hvort við náum árangri eða ekki. Formaður Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir, rifjaði það upp í nýlegu hlaðvarpsviðtali hvernig hún hefði stigið fram í Covid-faraldrinum og lagt til að atvinnuleysisbætur yrðu hækkaðar.
Úrræði ríkisstjórnarinnar voru þó mun betri og skiptu sköpum fyrir atvinnulífið. Úrræðin fólust í því að viðhalda ráðningarsambandi eins og hægt var og skiluðu því að lokum að fáar þjóðir komust jafnfljótt út úr ástandinu og Ísland. Atvinnurekendur nýttu sér úrræðin og margir einstaklingar héldu sem betur fer störfum sínum á meðan aðrir áttu þess kost að sækja sér aukna menntun. Fyrirtækin héldu starfsemi áfram og fjölskyldur höfðu áfram fyrirvinnu. Ríkisstjórnin studdi fólk og fyrirtæki út úr vandanum í stað þess að festa fólk í klóm atvinnuleysis með ófyrirséðum afleiðingum. Ef ekki hefði verið brugðist við með þessum hætti hefðu afleiðingarnar líklega verið minni slagkraftur atvinnulífs og minni verðmætasköpun, sem hefur ekki aðeins neikvæð áhrif á efnahagslífið heldur einnig störf og virkni einstaklinga.
Hugmyndir Samfylkingarinnar um að hækka atvinnuleysisbætur voru slæmar á þeim tíma og eldast ekki vel.
Hugmyndir vinstrimanna um hærri atvinnuleysisbætur eru dæmi um skammtímahugsun og litla trú á einstaklingnum. Við megum ekki láta skammtímahugsun og örvæntingarfull afskipti hins opinbera ráða för þegar við tökum ákvarðanir. Það eru vissulega til stjórnmálamenn sem trúa því að stjórnvöld geti valið sér feita og stóra bita af hlaðborði opinberra fjármuna með skattlagningu. Þegar hlaðborðið klárast, sem það mun alltaf gera, og það vantar meiri fjármuni er lausnin alltaf frekari skattahækkanir. Þetta er mantra stjórnmálamanna sem telja sig alltaf geta mætt áskorunum í efnahagsmálum með annarra manna peningum.
Við eigum að standa vörð um störf hér á landi og fjölga hálaunastörfum, til dæmis með uppbyggingu tæknifyrirtækja og fyrirtækja sem byggja á hugviti. Með þekkingardrifnu atvinnulífi verður verðmætasköpunin fjölbreyttari með mörgum eggjum í enn fleiri körfum. Þegar gefur á bátinn, hverjar sem ástæðurnar kunna að vera, mun batinn alltaf felast í því að hér sé öflugt – og fjölbreytt – atvinnulíf sem leggur grunn að þeim verðmætum sem þjóðin skapar. Þess vegna þurfum við að viðhalda virkni fólks á vinnumarkaði eins og hægt er. Auðlindir eru í eðli sínu takmarkaðar en hugvit ekki.
Pistillinn „Letjandi eða hvetjandi hlaðborð hugmynda?” birtist í Morgunblaðinu 1. ágúst 2023.