Parísarhjól sem snýst ekki

Ummæli borgarstjóra í liðinni viku um að skrifa mætti stóran þátt af taprekstri borgarinnar á málefni fatlaðra voru hvort í senn ósmekkleg og röng. Það að hlusta á slíkt tal minnir dálítið á pabbann sem kvartaði undan því hvað það væri dýrt að eiga börn á meðan hann eyddi öllu sínu í vellystingar og vín. Allir sem hafa eitthvað fylgst með gangi mála í borginni vita að áralangt sinnuleysi í fjármálum borgarinnar skrifast ekki á einn málaflokk, í þessu tilviki þjónustu við fatlaða, heldur á áhugaleysi og getuleysi borgarstjórnar til að reka borgina vel.

Við vitum vel hvert vandamálið er í rekstri borgarinnar. Vinstri meirihlutinn sem hefur stjórnað borginni nú í rúm 13 ár – með ýmsum viðbótum og tjasli – hefur hvorki áhuga á fjármálum né rekstri. Reykjavíkurborg sker sig því úr hvað rekstur varðar en ósjálfbær rekstur borgarinnar hefur neikvæð áhrif á daglegt líf borgarbúa til lengri tíma. Það kemur alltaf að skuldadögum og í tilfelli borgarinnar koma áhrifin fyrst og fremst fram í verri þjónustu við borgarbúa. Þar má meðal annars nefna árlegan skort á leikskólaplássum, skort á snjómokstri, vandamál við sorphirðu, vanrækslu á viðhaldi skóla, töf á svörum við leyfisveitingum og þannig má áfram telja. Það má því á vissan hátt segja að það sé nú þegar komið að skuldadögum, því íbúar í borginni líða nú þegar fyrir skuldirnar þar sem þeir fá ekki þá grunnþjónustu sem borgin á að veita.

Lestarslys sýnt hægt

Þó slæmur fjárhagur borgarinnar sé nú öllum augljós er vandamálið ekki nýtt af nálinni. Það er lengi búið að vara við því hvert rekstur borgarinnar stefnir. Á árunum fyrir heimsfaraldur ríkti hér eitt mesta góðæri sem íslensk þjóð hefur nokkurn tímann kynnst. Ríkið nýtti þann tíma til að greiða niður skuldir og safna í sjóði. Á sama tíma safnaði borgin skuldum og rekstur hennar komst í óefni.

Reksturinn hefur lengi litið út eins og lestarslys sem sýnt er hægt. Þeir sem bentu á það voru sakaðir um leiðindi og röfl, þar með talið sú sem hér skrifar. Vinstri meirihlutinn hefur lagt meira upp úr því að hafa gaman, hvort sem er hér á landi eða í skemmtiferðum til útlanda, heldur en að sýna ábyrgð. Meirihlutinn féll að vísu í kosningum 2018 og aftur 2022, en tókst að snapa Viðreisn og síðar Framsóknarflokkinn í áframhaldandi partístand þar sem meiri áhersla er lögð á að byggja skýjaborgir en þjónusta íbúa borgarinnar. Ólíkt íbúum í Reykjavík virðist þessum flokkum líða vel, þó partíið sé auðvitað löngu búið.

Það er auðvitað miklu skemmtilegra að tala um parísarhjól og pálmatré en rekstur og ráðdeild. Staðreyndin er þó sú að flestir vita að það þarf að hafa fyrir hlutunum og taka ábyrgð. Það vita til dæmis þeir fjölmörgu ungu foreldrar í borginni sem geta ekki sinnt fullri vinnu af því að þeir fá ekki leikskólapláss. Enn bitnar það verr á atvinnuþátttöku kvenna. Það hjálpar þeim lítið þó borgarstjóri gorti sig af því í fjölmiðlum að bjóða upp á ódýrustu leikskólaplássin. Það er eins og að monta sig af ódýrri matvöru þó allar hillur í búðinni séu tómar, eins og við þekkjum úr sögunni.

Yfirdrátturinn búinn

Reykjavíkurborg er búin að fullnýta lánalínur bankanna (sem eru eins og yfirdráttur) og fjárfestar hafa lítinn áhuga á því að kaupa skuldabréf borgarinnar. Félagsbústaðir stefna að öllu óbreyttu í greiðsluþrot og það verður ekki alltaf hægt að sækja innstæðulausar arðgreiðslur í Orkuveituna eins og gert var fyrr á þessu ári til að fegra reikningana. Það er alveg sama hversu oft og í hversu mörgum orðum fráfarandi borgarstjóri reynir að halda því fram að borgin sé vel rekin. Tölurnar í reikningum borgarinnar segja allt sem segja þarf um getu og áhuga meirihlutans á því að reka borgina vel.

Mögulega verður skipaður starfshópur um endurskoðun á rekstri borgarinnar, sem eftir nokkurra mánaða vinnu kemst að því að það þurfi mögulega að reka borgina betur. Rétt eins og starfshópur um endurskoðun á handbók vetrarþjónustu komst að því að það þyrfti að moka göturnar þegar það snjóar.
Það er vissulega fyndið þar til það snjóar og það kemur í ljós að það er ekkert skipulag í kringum þjónustuna.

Reykbombur

Það verður ekki af borgarstjóranum tekið að það var sniðugt að varpa fram hugmyndum um parísarhjól á síðustu dögum. Það er skemmtilegra að ræða það heldur en fjárhagsstöðu borgarinnar. Staðan núna er þó sú að þó hjólið rísi myndi það eflaust ekki snúast.

Það væri aftur á móti fróðlegt að heyra hagfræðinginn og formann Samfylkingarinnar, sem þráir það heitast að setjast í stól fjármálaráðherra, gefa álit sitt á rekstri Reykjavíkurborgar. Hvort hún túlki tölurnar með sama hætti og borgarstjórinn eða setji upp raunveruleg hagfræðigleraugu til að meta tjónið.

Efnahagsstefna Samfylkingarinnar gengur í meginatriðum út á það að hækka skatta og safna skuldum og henni hefur verið fylgt eftir í Reykjavík. Það má því velta því fyrir sér hvort það sé eftirsóknarvert að heimfæra rekstur borgarinnar upp á ríkið.

Hin leiðin er að sýna ábyrgð, reka hið opinbera af skynsemi og sinna grunnþjónustu við íbúa vel. Þannig er hægt að skapa aðstæður þar sem lífið getur verið skemmtilegt fyrir alla, en ekki bara þá sem vinna í ráðhúsinu. Það væri meira að segja hægt að reisa parísarhjól sem snýst.

Pistillinn „Parísarhjól sem snýst ekki” birtist í Morgunblaðinu 11. september 2023.