Ísland eignaðist nýlega einhyrning, frumkvöðlafyrirtæki sem er metið á yfir einn milljarð bandaríkjadala.
Nýsköpunarfyrirtækið Kerecis, sem nýtir sér auðlindir sjávar í þeim tilgangi að útbúa lækningavörur, var stofnað og byggt upp á Ísafirði og selt fyrir metfjárhæð. Kerecis hefði ekki byggst upp á Vestfjörðum ef þar væri ekki fyrir vel menntað fólk sem hefur umsjón með rannsóknum, þróun og framleiðslu.
Sumt af því fólki hefur þurft að flytja landshorna á milli og jafnvel til annarra landa til að verða sér úti um menntun. Aðrir hafa haft kost á því að nýta sér fjarnám og þannig fengið tækifæri til að búa sér og fjölskyldum sínum heimili í heimabyggð á meðan það viðar að sér ómetanlegri þekkingu og færni. Ef fólkið sem fór burt hefði ekki komið aftur hefði Kerecis líklega aldrei orðið að því sem það varð.
Að sama skapi þarf öll þjónusta að vera til staðar í nærsamfélagi, þar með talin heilbrigðisþjónusta. Ljósmæður á Norðurlandi og Sjúkrahúsið á Akureyri hafa nýlega vakið athygli á því að ljósmæðrum fjölgar lítið fyrir norðan eftir að fjarnám í ljósmóðurfræðum var lagt niður fyrir 15 árum. Fæðingarþjónusta er lykilatriði í því að halda byggð í landinu en það eiga þess ekki allir kost að flytja milli landshluta með börn og buru til að leggja stund á það nám sem hugurinn leitar til. Það hefur greinilega orðið raunin með ljósmóðurfræðina.
Árangurstengd fjármögnun
Í nútímasamfélagi gefast þó ýmis tækifæri til að stunda ýmiss konar fjarnám og fjarvinnu, en betur má ef duga skal. Sjálf hef ég ferðast um landið og sett upp skrifstofu ráðherra óháð staðsetningu á kjörtímabilinu. Það hefur verið mér dýrmætt að hitta og tala við fólk um land allt og heyra af þeim tækifærum og áskorunum sem það fæst við í byggðum landsins. Oft er mikill samhljómur í þeim málum sem fólk viðrar en eitt atriði stendur þó upp úr; ákall um aukið fjarnám á háskólastigi. Það er eðlilegt ákall því fjarnám er nauðsynlegt svo að byggðir landsins blómstri og að fólk geti valið að búa þar sem hjarta þeirra slær.
Fyrr í vikunni kynnti ég áform um gagngera breytingu á fjármögnun háskóla á Íslandi þar sem farið er úr ógagnsæju og magndrifnu kerfi frá 1999 í árangurstengda fjármögnun. Um árabil hefur verið kallað eftir endurskoðun á kerfinu til að auka skilvirkni og gæði háskólanna. Kerfið hefur hingað til ekki búið til þá hvata sem eru forsenda meiri árangurs háskólanna. Breytingarnar fela í sér að fjármögnun til kennslu og rannsókna verða árangurstengdar ásamt því að í fyrsta sinn er kynnt til leiks sérstök fjármögnun til að mæta samfélagslegu hlutverki háskóla, sem m.a. felst í nýsköpun í kennslu sem og að jafna tækifæri til náms óháð búsetu, uppruna og samfélagsstöðu. Þetta þýðir að með nýju skipulagi myndast í fyrsta skipti hvati fyrir háskólana í landinu til að efla fjarnám og bjóða ný tækifæri fyrir fólk um allt land. Í stað þess að skólarnir sjái aukið fjarnám sem byrði eða óyfirstíganlegt verkefni verður þeim nú beinlínis umbunað fyrir að bjóða upp á slíkt og styrktir til að efla námsframboðið. Í samræmi við byggðasjónarmið og áherslur um að menntun verði gert hátt undir höfði í öllum landshlutum sem og velsældaráherslu ríkisstjórnarinnar, þá verður í fyrsta sinn sérstök fjármögnun til eflingar byggðar fyrir landsbyggðaháskóla sem bjóða upp á staðnám. Þetta er mikilvægt til að gæta að háskólasamfélögum um allt land vegna smæðar skólanna og eðli náms svo sem á sviði búvísinda, sem er dýrara nám en stærri skólar bjóða upp á á höfuðborgarsvæðinu
Í fólki um allt land býr kraftur, sköpunargáfa og hæfileikar. Fái landsmenn allir tækifæri til að efla sig enn frekar í háskólanámi í sinni heimabyggð – hvort sem það er færni í að aðstoða fæðandi konur og bjóða nýja einstaklinga velkomna í heiminn, umbreyta fiskroði í lækningamátt – eða eitthvað alveg nýtt – þá munu heimabyggðir þeirra fá að njóta afrakstursins og byggð blómstra um allt land. Við höfum öll hagsmuni af því og það mun auka lífsgæði hér á landi enn frekar.
Pistillinn „Sömu tækifæri um allt land” birtist í Bændablaðinu 27. september 2023.