Ný sókn í þágu háskóla og sjálfstæðis

Af og til er vitnað í bréfið sem fræðimaðurinn Georg Brandes sendi Matthíasi Jochumssyni árið 1907 en þar sagði m.a.:

„Það er algert brjálæði fyrir 70 þúsund manna þjóð að vera ríki út af fyrir sig. Þið hafið enga verslun, engan iðnað, engan her, engan flota og þið eruð, þegar allt er talið, jafn margir og smábær í fimmtu röð á Englandi eða í Þýskalandi; þið hafið ekkert nema fræga fortíð.“

Örfáum árum síðar, þann 17. júní árið 1911, var Háskóli Íslands settur í fyrsta sinn. Nemendur voru alls 45 og kennarar skólans 11. Kannski dálítið brjálað, líkt og Brandes hefði sagt, en framsýnir Íslendingar áttuðu sig þá þegar á því að sjálfstæði Íslands yrði lítils virði án háskóla. Háskólar væru heilinn á bak við framþróun hverrar þjóðar.

Árangur fyrir Ísland

Nú í vikunni eru tvö ár síðan ríkisstjórnin var mynduð og gerðar voru þær breytingar á skipan ráðuneyta að sett var á laggir sérstakt ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar. Fagna má þeim tímamótum samhliða fullveldisdeginum vegna þess að háskólastarf var, er og verður órjúfanlegur hluti af sjálfstæði þjóðarinnar, lífsgæðum og fleiri tækifærum.

Ég er þakklát fyrir það traust að fá að leiða nýja ráðuneytið. Nokkrum mánuðum eftir tilurð þess kynnti ég stefnu mína í ritinu Árangur fyrir Ísland sem sjá má hér: https://issuu.com/aslaugarna/docs/a_as_bo_k-issuu

Þar má sjá að strax frá upphafi var ætlunin að fara í sókn í þágu háskóla og samfélags en óhjákvæmilegt var að horfast í augu við tvennt. Annars vegar átti sér stað mikill samdráttur í fjárveitingum til háskóla eftir bankahrun og við blasti að framlög til háskóla höfðu ekki náð fyrri fjárveitingum þrátt fyrir að nemendum hefði fjölgað verulega. Meðaltekjur íslenskra háskóla á hvern nema hafa verið áætlaðar 2,7 m.kr. en meðaltal Norðurlandanna eru 4,6 m.kr. á hvern nema. Hins vegar er staðreyndin sú að einungis 42% ungs fólk á Íslandi eru með háskólapróf en það hlutfall er um 50% í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Á sama tíma eru góðir háskólar forsenda öflugs atvinnulífs sem kallar m.a. eftir því að nemendum í tæknigreinum og verkfræði fjölgi. Á Íslandi vantar níu þúsund sérfræðinga á næstu fimm árum ef vaxtaspár hugverkaiðnaðarins eiga að ná fram að ganga.

Til að snúa þessari þróun við og hefja nýja sókn í þágu háskóla var í síðustu fjármálaáætlun ákveðið að auka framlag til háskólastigsins um sex milljarða frá fyrri áætlun. Í framhaldinu var árangurstengd fjármögnun háskóla kynnt en hún tryggir það að skólarnir þurfa með mælanlegum hætti að skila meiri og betri árangri til að fá hluta af þessu aukna fjármagni. Því miður er staðan sú að enginn háskóli hér á landi er á meðal 500 bestu háskóla heims. Íslendingar eiga skilið að hér séu háskólar á heimsmælikvarða og í þeim tilgangi var ráðist í þessa gagngeru kerfisbreytingu. Hún er forsenda þess að skólarnir geti náð framúrskarandi árangri. Ánægjulegt er að finna að skólarnir fagna breytingunni og hafa mikinn metnað í að sækja fram.

Samstarf og sameiningar

Einn af veikleikum háskólastigsins er að háskólarnir eru of margir miðað við fjölda íbúa. Því setti ég af stað verkefnið Samstarf háskóla þar sem sérstöku fjármagni er úthlutað til verkefna sem unnin eru sameiginlega af tveimur eða fleiri háskólum. Verkefnið hefur skilað miklum árangri og það hefur t.d. leitt af sér nýjar námsleiðir og meira fjarnám.

Í kjölfar betra samstarfs eru nú hafnar sameiningarviðræður á milli háskóla. Annars vegar á milli Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands sem ræða um hvernig hægt sé að nýta sérstöðu beggja skóla til að efla samstarf háskóla og atvinnulífs og stórbæta t.d. nám í fiskeldisfræðum. Hins vegar á milli Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst sem hafa tækifæri til að verða næststærsti háskóli landsins og leiðandi skóli í fjarnámi og þjónustu við íbúa um land allt. Einnig er ástæða til að nefna að nú þegar hefur Raunvísindastofnun verið sameinuð Háskóla Íslands þar sem meginmarkmiðið er að efla þessa mikilvægu rannsóknarstofnun sem enn og aftur sannar nú tilgang sinn þegar náttúruöflin minna á sig.

Nám og nýsköpun forsenda öflugra heilbrigðiskerfis

Á kjörtímabilinu hef ég ráðist í fjölmargar aðgerðir til að unnt verði að bæta heilbrigðisþjónustuna. Hröð öldrun þjóðarinnar kallar á að heilbrigðisþjónusta sé hugsuð upp á nýtt. Eitt brýnasta verkefni stjórnmálanna er að þjónusta við aldraða verði sett í forgang, bæta þarf aðgengi að heilbrigðisþjónustu og biðlistum þarf að útrýma. Til að það geti gerst þarf að útskrifa mun fleiri nemendur í heilbrigðisvísindum. Í því skyni hefur ráðuneytið farið í víðtækt átak með háskólunum til að fjölga m.a. nemendum í læknisfræði úr 60 í 90 í nokkrum skrefum til 2028 og hjúkrunarfræðinemum úr 195 í 250. Nýlega var einnig tekin löngu tímabær skóflustunga að nýju húsi heilbrigðisvísinda sem mun gjörbylta aðstöðu til kennslu og rannsókna.

Lykillinn að bættri heilbrigðisþjónustu er ekki bara aukið fjármagn og fleira starfsfólk. Forsenda þess að heilbrigðiskerfið ráði við öldrun þjóðarinnar er að auka skilvirkni kerfisins. Ég hef ítrekað bent á mikilvægi þess að nýsköpun sé nýtt í þeim tilgangi. Turnar heilbrigðiskerfisins hafa löngum verið illkleifir nýsköpunarfyrirtækjum og jafnvel eru til dæmi þess að í stað þess að ríki og sveitarfélög innleiði nýsköpun sem búið er að þróa þá fari opinberar stofnanir í beina samkeppni við einkaaðila með því að herma eftir þeirra lausnum með miklum tilkostnaði. Til að reyna að vinda ofan af þeirri menningu setti ég Fléttuna af stað. Það er innleiðingarstuðningur til nýsköpunarfyrirtækja og heilbrigðisstofnananna til að bæta verulega þjónustu við sjúklinga. Nú hef ég tvisvar úthlutað styrkjum úr Fléttunni og samtals hafa 20 nýsköpunarlausnir verið styrktar. Ég fagna því að helstu heilbrigðisstofnanir landsins, m.a. Landspítalinn, hafa tekið þátt í verkefninu og innleitt íslenska nýsköpun.

Háskólar verði ekki elítuskólar

Þegar farið er af stað með nýja sókn í þágu háskóla er mikilvægt að hafa í huga að skólarnir mega aldrei verða elítuskólar. Þeir verða að endurspegla fjölbreytnina í samfélaginu og í því skyni setti ég af stað átak til að hvetja ungt fólk, og þá sérstaklega stráka, til að skrá sig í háskóla. Strákar á Íslandi eru mun ólíklegri en strákar í samanburðarlöndum til að sækja háskóla og hér eru þeir ekki nema um þriðjungur háskólanema. Átakið skilaði þeim árangri að hlutfall karlkyns umsækjenda um nám í Háskóla Íslands jókst um 13% í haust miðað við fyrra ár. Það er magnað að sjá loksins fjölgun meðal karlkyns nemenda í HÍ og árangurinn af átakinu var það góður að farið verður í sambærilegt verkefni á næsta ári. Einnig er ánægjulegt að sjá að hlutfall karla í hjúkrunarfræði vex hratt núna.

Til að fjölga háskólanemum þarf líka að tryggja aðgengi að námi óháð efnahag og því ákvað ég að bæta hag námsmanna með hækkun grunnframfærslu um 18% sem hefur verið þeirra stærsta baráttumál undanfarin ár.

Fjölbreytnin lýsir sér einnig í því að háskólarnir taki vel á móti nemendum af erlendum uppruna sem og erlendum háskólanemum sem langar að stunda nám á Íslandi. Settar hafa verið nýjar reglur sem fela það í sér að erlendir nemendur við íslenska háskóla fá þriggja ára dvalarleyfi að námi loknu en hingað til hefur það einungis verið sex mánuðir. Þetta er stórt skref í þá átt að íslenskt samfélag fái notið sérfræðiþekkingar erlendis frá og ýtir undir samkeppnishæfni þjóðarinnar.

Nýjasta verkefnið sem á að opna háskólana fyrir ólíkum nemendum er að í vikunni kynnti ég frumvarp í ríkisstjórn sem felur í sér heimild háskóla til að bjóða upp á örnám til námseininga. Um er að ræða styttra háskólanám sem þó lýtur öllum gæðakröfum sem gerðar eru til náms á háskólastigi. Örnám hefur vaxið hratt í Evrópu á undanförnum árum, ekki síst vegna krafna atvinnulífs og einstaklinga um hæfniþróun og endurmenntun í formi styttri námsleiða.

Róttækar kerfisbreytingar

Í tilefni af fullveldisdeginum á morgun ákvað ég að helga þessa grein háskólunum. Ég mun síðar fjalla um árangur á öðrum málefnasviðum ráðuneytisins svo sem fjarskiptum, netöryggi, nýsköpun og sjóðakerfinu, iðnaðinum, gervigreindinni o.fl.

Það er umfram mínar væntingar að öllum þessum verkefnum sé lokið áður en kjörtímabilið er hálfnað. Ég þakka það ekki síst nýju verklagi í ráðuneytinu þar sem mikilvæg verkefni eru sett í skýran forgang. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að innleiða nútímalega stjórnunarhætti þar sem við höfum bæði lært af því besta sem gerist hér á landi sem og alþjóðlegum fyrirtækjum og stofnunum. Fjölmargar nýjungar koma þar við sögu og áhugasamir geta kynnt sér þær í ritinu Vinnulag HVIN snýst um árangur sem finna má hér: https://issuu.com/hvin/docs/5mg7z8i6zlc

Þessi gagngera kerfisbreyting sem felst í nýju verklagi í Stjórnarráðinu hefur verið afar skemmtilegt verkefni og ánægjulegt hvað starfsfólkið hefur tekið henni vel. Ráðuneytið starfar sem ein liðsheild í átt að árangri fyrir Ísland.

Ég trúi á Ísland

Sem ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar nota ég 1. desember til að rifja það upp að nýtt háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti var sett á laggir svo að íslenskt samfélag geti tekist á við þá byltingu sem orðið hefur í þekkingariðnaði á 21. öld. Við stofnun ráðuneytisins var undirstrikað að stjórnkerfi hvers ríkis þurfi að bregðast við þessu og laga skipulag sitt að nýjum veruleika.

Ég trúi á Ísland. Ég trúi á það að það starf sem við vinnum nú styrki land og þjóð og efli sjálfstæði okkar. Ég er viss um að hér getur verið best að búa en við verðum að efla lífskjörin enn frekar. Lykillinn að þeim er að við virkjum miklu betur okkar dýrmætustu en um leið vannýttustu auðlind: Hugvitið!

Pistillinn „Ný sókn í þágu háskóla og sjálfstæðis” birtist í Morgunblaðinu 30. nóvember 2023.