Öflugur háskóli á landsbyggðinni

Menntakerfið á Íslandi þarf að taka breytingum. Ég hef áður bent á að í alþjóðlegum samanburði stöndum við ekki vel og árangurinn lætur á sér standa. Það má þó ekki horfa framhjá því að margt er vel gert, við eigum öfluga kennara, metnaðarfulla nemendur og rannsóknir og frumkvöðla á heimsmælikvarða.

Samkeppnishæfni okkar sem þjóðar skiptir öllu máli til að tryggja lífskjör landsmanna og framtíðarkynslóða. Háskólastigið er þar mikilvægur hlekkur, skólarnir eru of margir miðað við fjölda íbúa. Við þurfum að sameina krafta, styrkleika og sérfræðiþekkingu háskóla, þannig verða þeir sterkari og samkeppnishæfari.

Samstarf háskóla setti ég af stað fyrir rúmu ári til að hvetja til nánara samstarfs milli háskóla. Verkefnið hefur þegar skilað árangri og hefur t.d. leitt af sér möguleika til að mæta áskorunum í heilbrigðiskerfinu með fjölgun heilbrigðismenntaðra, styrkingu á tækni- og raunvísindanámi og auknu fjarnámi. Ég hef horft til þess að aukið samstarf skóla leiði til þess að þeir eigi frumkvæði að þeim sameiningum sem mest styrkja háskólastigið.

Það er fagnaðarefni að háskólaráð Háskólans á Akureyri og stjórn Háskólans á Bifröst hafa ákveðið að ganga til sameiningarviðræðna. Það kemur til í framhaldi af öflugu samstarfi háskólanna og greiningar sem var afar vel unnin.

Með sameiningunni getur orðið til enn öflugri háskóli á landsbyggðinni sem tekur afgerandi forystu í fjarnámi og þjónustu við nemendur um land allt sem kalla eftir sveigjanlegum námsaðferðum eins og þessir tveir skólar hafa verið leiðandi í. Kröftugur sameinaður háskóli á Akureyri mun styrkja landsbyggðina í heild og fjölga tækifærum til náms utan höfuðborgarsvæðisins, ekki síst í gegnum aukna möguleika á fjölbreyttu fjarnámi.

Það er rík ástæða fyrir því að ég hef lagt á þetta áherslu. Háskólastarf og hærra menntunarstig hefur jákvæð áhrif á samfélagið, bæði efnahagsleg og samfélagsleg. Það eykur fjölbreytni atvinnulífs, eflir nýsköpun sem laðar að fleira fólk og eykur verðmætasköpun. Þannig verða lífsgæðin meiri og mannlífið skemmtilegra.

Aðgangur að menntun á landsbyggðinni fjölgar háskólanemum og þeir nemendur eru líklegri til að búa áfram í sinni heimabyggð.

Markmið sameiningar er hvorki niðurskurður né fækkun námsbrauta heldur er ætlunin þvert á móti að blása til sóknar og styrkja landsbyggðina, íslenskt fræðasamfélag og þjóðfélagið í heild sinni. Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Bifröst hafa báðir sína sérstöðu, sérþekkingu, menningu og sögu sem mun verða mikilvægt framlag inn í sameiginlegan háskóla. Á sama tíma deila skólarnir sömu framtíðarsýn og metnaði til að vera öflugur háskóli fyrir landið allt í fremstu röð.

Pistillinn „Öflugur háskóli á landsbyggðinni” birtist í Morgunblaðinu 12. janúar 2024.