Í kvikmyndum þar sem sögusviðið er geimurinn er rauði þráðurinn yfirleitt ógn. Ógn sem oftast er óþekkt, framandi verur eða vélmenni sem hafa tekið eða eru líklegar til að taka yfir. Í raunveruleikanum er staðreyndin sú að gervihnettir sem svífa um himinhvolfin geta orðið bandamenn okkar í öryggi og hluti af vörnum Íslands.
Einn af veigamestu þáttunum í öryggis- og varnarmálum þjóðarinnar snýr að öryggi fjarskipta og fjarskiptainnviða. Það er ekki vanþörf á enda eru fjölþátta ógnir, netárásir, falsfréttir og aðrar aðgerðir alvarleg og vaxandi ógn, ekki aðeins á Íslandi heldur um heim allan. Opin og lýðræðisleg samfélög, þar sem stafræn þróun hefur verið hröð, eru sérstaklega viðkvæm fyrir slíkum árásum.
Fjarskiptasæstrengir tengja Ísland við umheiminn. Talið er að rússneskir kafbátar hafi nú þegar kortlagt sæstrengina okkar og áhyggjur fara vaxandi um það hvað gerist ef landið verður skyndilega sambandslaust við umheiminn.
Þess vegna hef ég lagt áherslu á að við bregðumst við þeirri ógn með því að nýta tæknina og gera hana að bandamanni. Tæknin getur skapað okkur aukið öryggi. Fari svo að fjarskiptasæstrengir sem liggja til Íslands verði fyrir skaða er til búnaður sem getur tryggt fjarskiptasamband okkar til skemmri tíma. Gervihnettirnir hafa burði til að vera nokkurs konar vara-netsamband okkar við útlönd, og um leið hér innanlands komi til þess að samband um sæstrengi rofni.
Í haust kynnti ég að möguleiki væri að taka þátt í áætlun Evrópu um öryggiskerfi um gervihnetti (Secure Connectivity Programme), slíkt gæti tryggt aðgengi að hraðvirkum, öruggum og hagkvæmum fjarskiptum um gervihnetti á heimsvísu. Nú hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkt að hefja samningaviðræður við Ísland um þátttöku okkar í áætluninni. Slíkt getur skipt höfuðmáli þegar kemur að því að tryggja öryggi okkar en getur líka stutt mikilvæga fjarskiptainnviði með því að tryggja aðgengi löggæslu og viðbragðsaðila að öruggum fjarskiptum á neyðarstundu. Áformin fela jafnframt í sér uppbyggingu á kerfi sem einkaaðilar gætu nýtt til að bjóða hraðvirka netþjónustu, þ.m.t. á dreifbýlum svæðum hérlendis og á hálendinu.
Tæknin er og verður okkur mikilvægur bandamaður til að tryggja fjarskiptaöryggi Íslands. Sem ráðherra þeirra málaflokka sem snúa að þróun tölvutækni og fjarskiptaöryggis legg ég ríka áherslu á að styðja sem best við framgang þeirra, sem eina af mikilvægustu stoðunum til að auka samkeppnishæfni og velsæld þjóðarinnar til framtíðar – og tryggja um leið öryggi í víðum skilningi.
Pistillinn „Tæknin tryggi öryggi” birtist í Morgunblaðinu 22. janúar 2024.