Við stöndum frammi fyrir ýmsum áskorunum í íslensku samfélagi, þar á meðal í efnahagsmálum. Forsendur þess að geta tekist á við áskoranir eru traustur efnahagur og aukin verðmætasköpun. Það er mikilvægt að sinna vel þeim stoðum sem hagkerfi okkar byggir á enda er fjölbreytt og öflugt atvinnulíf undirstaða lífskjara á Íslandi.
Menntamál eru eitt stærsta efnahagsmálið enda er öflugur mannauður lykilþáttur er kemur að vaxtatækifærum Íslands. Ef við ætlum að auka verðmætasköpun og grípa þau tækifæri sem í boði eru er mikilvægt að við séum með alþjóðlega samkeppnishæfa háskóla, bæði fyrir einstaklinga og atvinnulífið. Menntakerfið þarf að þjóna sem best þörfum atvinnulífsins og mæta áskorunum samfélagsins. Þar leika háskólarnir, í samvinnu við vísindasamfélagið og í nánum tengslum við nýsköpun og atvinnulíf, lykilhlutverk í að fjölga stoðum íslensks efnahagslífs.
Til að auka slagkraft háskóla í íslensku samfélagi einsetti ég mér að búa til hvata til þess að sækja fram, starfa saman og auka samkeppnishæfni. Samstarf háskóla er verkefni sem ég setti á laggirnar í þeim tilgangi að beina fjármunum sem áður fóru í óskilgreind verkefni, með gagnsæjum hætti í verkefni sem auka gæði háskólanna og eru í takti við áherslur er tengjast m.a. sameiningum, minni yfirbyggingu, nýsköpun í kennsluháttum, fjölgun nemenda í heilbrigðis- og tæknigreinum, öflugra fjarnámi og jafnari tækifærum til náms.
Fjórir háskólar eiga nú í viðræðum um sameiningar. Annars vegar Háskóli Íslands og Háskólinn á Hólum og hins vegar Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Bifröst. Það er fagnaðarefni enda geta stærri háskólaeiningar og aukið samstarf þeirra á milli gert skólana okkar sterkari og samkeppnishæfari – og samfélagið öflugra til lengri tíma.
Verkefnin munu meðal annars auðvelda nemendum að stunda meistaranám við fleiri en einn háskóla, auðvelda háskólunum að sannreyna alþjóðleg prófskírteini og auðvelda fólki með erlendar prófgráður þátttöku í íslensku samfélagi, festa í sessi tækninám á Norðurlandi og í fjarnámi og að innleiða betur raunfærnimat til styttingar náms.
Þá er fjöldi verkefna sem miða að því að efla heilbrigðisvísindi og áskoranir heilbrigðiskerfisins, t.d. að nýta sýndarveruleika og þrívíddarprent til að auka öryggi sjúklinga og bæta heilbrigðisþjónustu, bæta nýtingu námsplássa í hjúkrunarfræði milli háskóla og nýtt nám í ráðgjöf fólks með heilabilun.
Menntamál eru sem fyrr segir efnahagsmál. Þar sem hið opinbera beitir sér á annað borð er mikilvægt að það verði til þess fallið að stuðla að umhverfi þar sem hægt er að sækja fram, ýta undir öflugt atvinnulíf og enn frekari verðmætasköpun. Þannig sköpum við aðstæður til að efla samkeppnishæfni landsins.
Pistillinn „Samspil háskóla og hagvaxtar” birtist í Morgunblaðinu 31. janúar 2024.