Strútarnir í Reykjavík

Reykjavík er höfuðborg Íslands, fjölmennasta sveitarfélagið og eina borgin á Íslandi. Reykjavík ætti því að vera fjárhagslega, menningarlega og stjórnarfarslega þungamiðja landsins og fyrirmynd annarra sveitarfélaga. Sveitarfélagið þar sem þjónusta er framúrskarandi og forysta er um mikilvæga málaflokka. Það er því miður ekki raunin og hefur ekki verið um langt skeið. Síðasta áratug hefur núverandi meirihluti, með reglulegum innáskiptingum, gleymt erindi sínu. Reykjavíkurborg er eftirbátur annarra sveitarfélaga og nær ekki að sinna grunnþjónustu við íbúana með sóma.

Reglulega er gerð könnun meðal stærstu sveitarfélaga landsins. Könnunin endurspeglar viðhorf og ánægju íbúa með þjónustu og störf síns sveitarfélags. Það er ánægjulegt að í þjónustukönnun Gallup hefur t.d. ánægja Hafnfirðinga aukist síðustu ár og eru þeir komnir í hóp ánægðustu íbúanna.

Við vitum hins vegar minna um það hvernig ánægja íbúa borgarinnar mælist og hver þróunin hefur verið síðustu ár. Þegar mæling á ánægju íbúa borgarinnar var í frjálsu falli síðasta áratug var lausnin sú að hætta einfaldlega að mæla hana. Árið 2018 mældist Reykjavíkurborg langneðst í þjónustukönnun Gallup í samanburði við önnur sveitarfélög þegar kom að þjónustu við leik- og grunnskóla, þjónustu við eldri borgara, þjónustu við fatlaða og heildaránægju íbúa.

Í þessari viku er kjördæmavika alþingismanna. Í gær kom ég úr hringferð Sjálfstæðisflokksins um landið þar sem mörg sveitarfélög segja stolt frá bættum árangri og öflugri þjónustu. Talsvert annað hljóð er í borgarbúum. Foreldrar bíða úrræðalausir eftir að börnin komist í leikskóla, grunnskólar eru látnir mæta afgangi, skipulagsmál eru í ólestri og fólk eyðir mörgum klukkutímum í umferðinni. Stjórnkerfið þenst út en þjónustan versnar. Reykjavíkurborg stendur veikt fjárhagslega, álögur á íbúa og fyrirtæki eru þungar og skuldir óhóflegar.

Afleiðinguna þekkjum við öll og kemur fáum á óvart – þjónusta við borgarbúa er léleg. En fjárhagsvandræði Reykjavíkur urðu ekki til af sjálfu sér. Þau koma til þar sem vinstri meirihluti borgarstjórnar hefur lagt meiri áherslu á sín eigin hugðarefni en þjónustu við íbúa. Meirihluti borgarstjórnar virðist ekki skynja hlutverk sitt og skyldur. Það er þægilegra að blása kerfið út í stað þess að tryggja börnum leikskólapláss eða styðja við skólastjórnendur og kennara sem vilja auka gæði grunnskólans.

Ég vona að borgarfulltrúar meirihlutans taki upp samtal við íbúana. Fái innsýn í daglegt líf fólks sem ætlast til þess að borgin veiti þá þjónustu sem lofað hefur verið en ekki staðið við. En kannski verður valið alltaf frekar að mæla bara ekki viðhorf og ánægju borgarbúa og stinga höfðinu í sandinn.

Pistillinn „Strútarnir í Reykjavík” birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 2024.