Á tímamótum tækniframfara stöndum við gjarnan frammi fyrir augnablikum sem geta virkað óraunveruleg í eðli sínu. Fáir hefðu líklega tekið alvarlega fullyrðingar árið 2019 um að árið 2024 þætti fólki orðið sjálfsagt að geta beðið gervigreind um að hjálpa sér að skipuleggja daginn sinn, setja upp mataráætlun, skrifa fyrir sig pistla, forrita litla tölvuleiki án forritunarþekkingar eða búa til stutt myndbönd út frá einföldum lýsingum.
Jensen Huang er forstjóri Nvidia sem er það fyrirtæki sem jók mest tekjur sínar í heiminum síðastliðið ár. Fyrirtækið smíðar tölvukubba og þróar tækni sem er notuð fyrir gervigreind. Huang sagði í viðtali nýlega að þökk sé gervigreind gætu allir í dag verið forritarar vegna þess að tungumálið hefði verið gert aðgengilegt og væri nú „tungumál mannsins“. Huang hélt áfram og sagði að fram undan væri tími þar sem þeir einstaklingar sem hafa góða þekkingu á sínu sérsviði, t.d. á sviði menntunar eða landbúnaðar, gætu stóraukið afköst sín og virði, svo gott sem á einni nóttu. Eina sem til þarf er tölva eða sími og internetaðgangur. Huang lýsir þessu ferli sem „gleðilegri uppskölun manneskjunnar“ (e. delightful upscaling of humans).
Gervigreind er ekki að koma í stað fólks; hún magnar upp getu okkar á ákveðnum sviðum og gerir okkur kleift að gera meira og betur. Gervigreindin er ekki að taka yfir störf forritara, heldur eykur hún hraða og skilvirkni þeirra. Gervigreind mun ekki koma í staðinn fyrir lækna, en auðveldar greiningar og meðferðir með aukinni nákvæmni og veitir þeim meiri tíma til að sinna sjúklingum betur. Gervigreind kemur heldur ekki í stað kennara, en mun geta boðið upp á sérsniðna nálgun sem hægt er að aðlaga þörfum hvers nemanda, gera námið árangursríkara og einstaklingsmiðaðra.
Svona má áfram telja.
Við megum ekki leyfa áhyggjum af neikvæðum hliðum tækninnar byrgja okkur sýn á tækifærin sem hún býður upp á. Þó að við séum vakandi fyrir hættunum. Við þurfum að horfa til þess hvernig við getum nýtt tæknina til að bæta samkeppnishæfni okkar og efla okkur sem manneskjur.
Ísland er í einstakri stöðu til að vera fremst meðal þjóða, hvergi hefur t.d. fólk betra aðgengi að háhraðainterneti en hér. Gervigreind getur fært okkur aukin tækifæri til að framkvæma það sem marga hefur lengi aðeins dreymt um, gert hluti betur og hraðar. En líka gefið okkur aukinn tíma til að gera allt það sem tæknin mun aldrei geta.
Þegar kemur rekstri ríkisins býður gervigreindin líka upp á endalausa möguleika til að einfalda regluverk, bæta þjónustu og draga úr kostnaði. Við ætlum að tryggja að Ísland sé samkeppnishæft og geti nýtt sér tæknina til að bæta lífsgæði.
Þessi pistill er skrifaður með hjálp gervigreindar.
Pistillinn „Gleðileg uppskölun manneskjunnar” birtist í Morgunblaðinu 18. mars 2024.