Árangur við þinglok

Við þinglok er við hæfi að líta til baka og sjá að þrátt fyrir ólíka hugmyndafræði og áherslur hefur ríkisstjórnin, þvert á spár, náð markverðum árangri. Við sögðumst ætla að klára stór og aðkallandi mál og það höfum við gert.

Við hétum því að standa með Grindavík þegar máttur náttúruaflanna minnti á sig. Við höfum veitt húsnæðis-, launa- og rekstrarstuðning og byggt varnargarða til að vernda byggðina. Við stöndum saman í áföllum og hjálpumst að þegar mest á reynir.

Útlendingalögum var breytt í annað sinn á kjörtímabilinu og kerfið er nú líkara því sem þekkist annars staðar á Norðurlöndunum. Það á að vera skilvirkt og við eigum ekki að taka á móti margfalt fleirum en nágrannaþjóðir okkar. Við í Sjálfstæðisflokknum höfum talað fyrir og reglulega lagt til breytingar á löggjöfinni og það er því ánægjulegt að sjá þær breytingar loksins samþykktar. Verkefninu er þó ekki lokið, málaflokkurinn er kvikur og við þurfum stöðugt að endurskoða alla ferla.

Við erum líka loksins að sjá breytingar á lögreglulögunum verða að veruleika. Lögregla verður að hafa getu og heimildir til að berjast gegn skipulagðri brotastarfsemi og tryggja aukið öryggi borgaranna. Á sama tíma tryggjum við eftirlit með notkun á slíkum heimildum, sem er ekki síður mikilvægt.

Á lokametrum þingsins klárast tvö mikilvæg mál sem ég lagði fram. Annars vegar sameining Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs – en í því eru tveir fjárfestingarsjóðir á málefnasviði nýsköpunar sameinaðir í nýjan öflugan sjóð, Nýsköpunarsjóðinn Kríu. Í því felst hagræðing og vonandi aukinn árangur fyrir nýsköpun á Íslandi. Hins vegar er um að ræða frumvarp um Menntasjóð námsmanna, en þar er lögð til rýmkun á skilyrðum fyrir námsstyrk og ábyrgðarmannakerfi námslána afnumið að fullu. Fram undan er svo áframhaldandi endurskoðun á kerfinu fyrir námsmenn.

Ég fagna því svo sérstaklega að fæðingarorlofsgreiðslur verða hækkaðar en sú breyting var löngu tímabær. Með hækkuninni, sem nær upp í 900 þúsund krónur í áföngum, erum við að tryggja betri stuðning við barnafjölskyldur í 12 mánaða orlofi. Stóra verkefnið fram undan er hjá sveitarfélögum að tryggja dagvistarúrræði fyrir þann hóp þegar orlofi sleppir.

Við þinglok horfum við til þess að sameina stofnanir og sjóði, auka skilvirkni, fjárfesta í mennta- og heilbrigðiskerfinu, bæta kerfi öryrkja, lækka áfengisgjöld fyrir smærri framleiðendur, sýna samstöðu með áframhaldandi stuðningi við Úkraínu og fordæmum átökin fyrir botni Miðjarðarhafs.

Hér er aðeins stiklað á stóru en verkefnin fram undan eru ekki síður brýn. Við munum halda áfram að auka samkeppnishæfni landsins, tryggja öryggi og auka lífsgæði í landinu.

Pistillinn „Árangur við þinglok” birtist í Morgunblaðinu 22. júní 2024.